Árið hófst með ánægjulegum fréttum þar sem tilkynnt var að viðskiptavinir Orku náttúrunnar væru ánægðastir allra á raforkumarkaði. Var þetta í fjórða árið í röð sem ON tók við Ánægjuvoginni. Þá var ON einnig hástökkvari ársins þegar horft er á öll fyrirtæki í öllum geirum á Íslandi.
Árni Hrannar Haraldsson var ráðinn framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar í lok janúar og hóf hann störf 1. maí.
Skipulagsstofnun auglýsti í byrjun febrúar, umhverfismatsskýrslu Carbfix vegna umhverfismats niðurdælingar á CO2 til geymslu á Hellisheiði. Var það fyrsta umhverfismat sinnar tegundar á Íslandi.
Það varð ljóst í febrúar að Sævar Freyr Þráinsson yrði nýr forstjóri Orkuveitunnar og tæki við þann 1. apríl af Bjarna Bjarnasyni sem hafði verið forstjóri í 12 ár.
Orkuveitan hlaut Menntasprotann árið 2023 fyrir verkefnið Vaxtarsprotar en verðlaunin voru afhent á Menntadegi atvinnulífsins. Verkefnið hefur það að markmiði að þróa vinnustaði Orkuveitunnar og breytta menningu til þess að takast betur á við síbreytilegt umhverfi og auknar kröfur og væntingar viðskiptavina.
Ný tilraunastöð Carbfix til kolefnisföngunar og -förgunar við virkjun Orku náttúrunnar á Nesjavöllum var tekin í notkun í mars. Eitt af markmiðum verkefnisins er að leggja grunn að fullri hreinsun á CO2 og H2S frá Nesjavallavirkjun síðar meir. Verkefnið er þýðingarmikið skref að því marki að minnka enn frekar losun gróðurhúsalofttegunda frá jarðvarmavirkjunum sem er eitt af lykilverkefnum í loftslagsaðgerðum Íslands.
Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Veitna var kosin í stjórn Alþjóða jarðhitasambandsins, IGA (International Geothermal Association). Hún mun sitja í stjórn félagsins næstu þrjú árin.
Ísland hélt enn og aftur toppsæti sínu sem það Evrópuland þar sem hæst hlutfall heimila nýtir sér ljósleiðaratengingu til að uppfylla gagnaflutningsþörf heimilisins.
60 Minutes, vinsælasti fréttaþáttur Bandaríkjanna, fjallaði um aðferð Carbfix til kolefnisbindingar á CBS sjónvarpsstöðinni. Fréttamaðurinn Bill Whitaker heimsótti Hellisheiðarvirkjun þar sem þau Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir og Kári Helgason ræddu við hann og útskýrðu tæknina.
Nesjavallaæð var hreinsuð í júní en hún var síðast hreinsuð fyrir tuttugu árum síðan. Tilgangurinn með hreinsuninni var að auka afkafstagetu æðarinnar en Nesjavallaæðin er ein af megin flutningsleiðum á heitu vatni til höfuðborgarsvæðisins.
Orka náttúrunnar fjölgaði bæði hverfahleðslum og hraðhleðslustöðvum á árinu og hefur fyrirtækið verið leiðandi í orkuskiptum frá upphafi. Í þeim tilgangi að fá enn fleiri í lið með sér hóf ON að bjóða áhugasömum fyrirtækjum að setja upp hraðhleðslustöðvar á lóðum sínum.
Orka náttúrunnar og landeldisfyrirtækið GeoSalmo undirrituðu raforkusamning um kaup á allt að 28 MW af raforku sem nýtt verður til landeldisstöðvar við Þorlákshöfn.
Orkustofnun komst að þeirri ánægjulegu niðurstöðu fyrir ON að mælar í hleðslustöðvum fyrirtækisins fyrir rafbíla standast kröfur en óvissa hafði ríkt um málið.
Orkuveitan lagði inn beiðni til Orkustofnunar um að verkefnisstjórn rammaáætlunar fjalli um þrjá vindorkukosti í nágrenni Hellisheiðar.
Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix og Árni Hrannar Haraldsson framkvæmdastjóri Orku Náttúrunnar tóku fyrstu skóflustungu að nýrri hreinsistöð, sem mun bera heitið Steingerður. Með tilkomu hennar tekst að fanga nær allt koldíoxíð og brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun.
Orkuveitan fékk staðfestingu frá Science Based Targets initiative (SBTi) um að loftslagsmarkmið samstæðunnar byggi á vísindalegum grunni og styðji við aðgerðir Parísarsáttmálans um að halda hlýnun jarðar innan við 1,5°C.
Samstarfsverkefni þrettán aðila undir forystu Carbfix, RMI og Pacific Northwest National Laboratory (PNNL) hlutu styrk frá bandaríska orkumálaráðuneytinu til að þróa verkefni um föngun kolefnis úr andrúmslofti og bindingu þess í jarðlögum í norðvesturhluta Bandaríkjanna. Styrkurinn nemur þremur milljónum dollara.
Einar Þórarinsson var ráðinn nýr framkvæmdastjóri Ljósleiðarans í lok sumars. Einar sem býr yfir rúmlega tuttugu ára reynslu sem stjórnandi kom til félagsins frá Sidekick Health en þar áður starfaði hann m.a. hjá Advania og Vodafone.
Öllum þeim sem tengst geta Ljósleiðaranum gafst tækifæri til að tífalda hraða sinn frá og með október þegar hámarkshraði varð 10 gígabitar í stað 1 áður. Ljósleiðarinn horfir til framtíðar og undirbýr heimilin í landinu fyrir þá þróun sem er að eiga sér stað.
Hluthafar Ljósleiðarans efh. samþykktu á hluthafafundi að hækka hlutafé í félaginu um sem svarar þriðjungi hlutafjár félagsins eftir hækkunina.
Í september var skemmtiferðaskip landtengt í Reykjavík í fyrsta sinn. Veitur lögðu rafstrenginn fyrir Faxaflóahafnir og tengingin getur þjónað tveimur skipum á sama tíma.
Kaup Ljósleiðarans ehf. á stofnneti Sýnar hf. voru samþykkt án skilyrða og samhliða kaupsamningi var gerður þjónustusamningur milli félaganna til 12 ára.
Orkuveitan var verðlaunuð af samtökunum Rise & Lead Women fyrir árangur sinn í að jafna launamun kynjanna. Ellen Ýr Aðalsteinsdóttir framkvæmdastýra Mannauðs og menningar tók við verðlaununum við hátíðlega athöfn í Haag.
Carbfix hlaut norrænu Blaze-jafnréttisverðlaunin í flokknum „Guardian“ en verðlaunin eru veitt fyrirtækjum eða einstaklingum sem vinna að sjálfbærni, loftslagsmálum og umhverfisvernd með áherslu á tengsl fjölbreytileika, inngildingar og loftslagsverndar.
Í ár græddi og gróðursetti sumarstarfsfólk Landgræðslu ON 10 hektara af landi, sem samsvarar bindingu 31,22 tonna C02 á ári!
Orkuveitan, Ljósleiðarinn og Veitur hlutu Jafnvægisvogina, viðurkenningu frá Félagi kvenna í atvinnurekstri, fyrir að hafa náð árangri í að jafna kynjahlutfall einstaklinga í stjórnunarstöðum. Viðurkenningarnar voru veittar á ráðstefnu sem bar yfirskriftina „Við töpum á einsleitninni – Jafnrétti er ákvörðun“.
Konur í orkumálum (KÍO) gáfu út fjórðu skýrsluna um stöðu kvenna innan íslenska orku- og veitugeirans. Þar kom fram að Veitur væru með hæstu einkunn úrtaksins eða 71,1%.
Stór tímamót urðu hjá Carbfix þegar tilraunir hófust í Helguvík með að nýta sjó í stað ferskvatns til varanlegrar bindingar koldíoxíðs (CO2) í berglögum. Tilraunin er nýmæli á heimsvísu og mikilvægt skref í framþróun tækni til kolefnisbindingar.
Forvitnishorn Jarðhitasýningar Orku Náttúrunnar var opnað með pompi og prakt í lok október en Forvitnishornið er fræðslurými fyrir börn á öllum aldri.
Tímaritið TIME hefur í fyrsta sinn birt lista yfir 100 áhrifamestu viðskiptaleiðtoga heims á sviði loftslagsmála, en þeirra á meðal er Edda Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix.
Ljósleiðarinn fékk verðlaun Evrópuráðsins sem bera heitið European Broadband Awards fyrir árið 2023. Verðlaunin fékk Ljósleiðarinn fyrir verkefnið „Kapphlaupið gegn Fagradalsfjalli“ sem unnið var þegar eldgos hófst við Fagradalsfjall vorið 2021. Axel Paul Gunnarsson tók við verðlaunum við hátíðlega athöfn í Brussel.
Orka náttúrunnar og Thor Landeldi ehf. undirrituðu raforkusamning sem tryggir Thor Landeldi ehf. 5 MW af raforku. Thor Landeldi er með í undirbúningi laxeldi í grennd við Þorlákshöfn.
Úthlutað var úr Vísindasjóði Orkuveitunnar, VOR, í nóvember þegar þrjátíu verkefni hlutu styrk. Hundrað milljónum og fimmhundruð þúsundum var úthlutað við hátíðlega athöfn sem fram fór í Elliðaárstöð.
Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid komu í heimsókn í Orkuveituna þann 23. nóvember, ásamt borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni og eiginkonu hans, Örnu Dögg Einarsdóttur. Tilefnið var opinber heimsókn forsetahjónanna til Reykjavíkur.
Orkuveitan, sveitarfélagið Ölfus og Títan tilkynntu á sameiginlegum fundi um áform um að sækja sameiginlega um rannsóknarleyfi með samstarf um nýtingu jarðhita í Ölfusdal í huga. Þá var einnig skrifað undir viljayfirlýsingu milli Orkuveitunnar og sveitarfélagsins Ölfuss.
Orkuveitan sótti um rannsóknarleyfi til Orkustofnunar til rannsókna á jarðhita í Meitlum og Hverahlíð II til 10 ára. Þörf er á frekari orkuvinnslu í Hengli á næstu áratugum, bæði til að mæta sívaxandi eftirspurn eftir heitu vatni og til að viðhalda og jafnvel auka rafmagnsframleiðslu.
Í lok árs fengu Veitur nýtingarleyfi frá Orkustofnun á jarðhita á Bakka og Hjallakrók í sveitarfélaginu Ölfusi. Vaxandi eftirspurn hefur verið í Ölfusi eftir heitu vatni og er nauðsynlegt að Veitur geti sinnt sinni lögbundnu skyldu og tryggi enn frekar nægjanlegt vatn til hitaveitu.