Í starfsemi Orkuveitunnar verður til margháttuð þekking sem nýst getur öðrum. Ræðst það meðal annars af;

  • forystu Orku náttúrunnar og Veitna í jarðhitanýtingu,
  • að Veitur eru langstærsta fyrirtæki sinnar tegundar á landinu,
  • að Ljósleiðarinn er með útbreiddasta ljósleiðaranet landsins og
  • að fjöldi nýsköpunarverkefna er unninn innan fyrirtækisins, þar sem Carbfix er einna mest áberandi.

Orkuveitan lítur á það sem hlutverk sitt að miðla reynslu og þekkingu til annarra sem geta haft not af. Yfirlit yfir birtar fræðigreinar starfsfólks og skýrslur er í viðhengi.

Elliðaárstöð.jpg

Elliðaárstöð - Yfirlitsmynd af svæðinu sem verið er að þróa.

Elliðaárstöð

Þróun Elliðaárstöðvar, nýs áfangastaðar við Rafstöðina við Elliðaár, gekk vel á árinu 2023. Lokið var við gerð vatnsleikjagarðs á svæðinu, Heimili veitnanna opnað skólafólki og öðrum gestum, gufubornum Dofra komið fyrir og veitingastaðurinn Á Bistró var opnaður eftir útboð Orkuveitunnar á aðstöðunni.

Jarðhitasýningin

Starfræksla Jarðhitasýningarinnar í Hellisheiðarvirkjun fluttist á árinu 2023 frá Orku náttúrunnar, sem framleiðir rafmagn og heitt vatn í virkjuninni, til Orkuveitunnar. Þar er reksturinn í sömu einingu og Elliðaárstöð. Starfsemin er keimlík, þótt ólík sé, og reynsla af rekstri annarrar fræðslustöðvarinnar nýtist í starfsemi hinnar. Á árinu 2023 rétti gestafjöldi Jarðhitasýningarinnar aftur úr kútnum eftir kórónuveiruárin og mikill meirihluti gestanna eru erlendur.