Orkuskipti í samgöngum

Styður heimsmarkmið
Sameinuðu þjóðanna
Nýsköpun og uppbygging Aðgerðir í loftslagsmálum

Að draga úr losun frá samgöngum er eitt helsta sóknarfæri Íslendinga í loftslagsmálum og raunar einnig í loftgæðamálum í þéttbýli. Vegna eðlis starfsemi Orkuveitunnar og dótturfélaga getur samstæðan lagt margt gott til með því að stuðla að orkuskiptum í samgöngum.

Frá því Orka náttúrunnar setti upp fyrstu hraðhleðslustöðina hér á landi, árið 2014, hefur fyrirtækið verið brauðryðjandi í uppbyggingu innviða fyrir orkuskipti í samgöngum. Sem betur fer hafa fleiri fyrirtæki slegist í hópinn og sett upp eigin hleðslustöðvar.

hradhledsla-on

Hraðhleðslur, hverfahleðslur, fyrirtækjahleðslur

Orka náttúrunnar hefur verið leiðandi í orkuskiptunum og lagt áherslu á uppsetningar hraðhleðslustöðva í alfaraleið, hringinn í kringum landið.

Hraðhleðslur ON eru staðsettar á helstu áningarstöðum í og við hringveginn svo sem við Víðigerði, Baulu, Varmahlíð og Geysi, á Húsavík, Selfossi, Flúðum og Freysnesi og í Búðardal og Hveragerði.

Hverfahleðslur ON eru einnig í alfaraleið fyrir rafbílaeigendur. Hverfahleðslur ON gefa fólki kost á að hlaða við sundlaugar, menningarhús, íþróttamiðstöðvar, skóla og leikskóla. Þær eru einnig hentugar fyrir fólk sem vill hlaða bílinn í sínu hverfi en á ekki kost á að hlaða heima við.

Þessum stöðvum hefur fjölgað hratt og stöðugt á síðustu árum enda eftirspurnin mikil í ljósi stækkunar rafbílaflotans. ON sinnir einnig stöðugri nýsköpun tengdri þessari starfsemi sinni, með það fyrir augum að styðja við vegferðina framundan enda mikið óunnið í þessum málaflokki.

Fyrirtækjahleðsla ON er þægilegur og áhyggjulaus kostur fyrir fyrirtæki. Sérfræðingar ON meta þörf hvers fyrirtækis fyrir sig, leggja til lausn sem hentar og sjá svo um allt viðhald hleðslustöðvanna auk þess að sinna þjónustu allan sólarhringinn. Þjónustan er sérsniðin og veitir mikið gagnsæi í rekstri í gegnum flotastýringu og álagsdreifingu auk þess að veita góðar og mikilvægar upplýsingar um notkun.

Fjöldi rafbíla á Íslandi og hleðslustöðva ON

Rafmagn úr landi í skemmtiferðaskip í fyrsta sinn í Reykjavík

Veitur, Faxaflóahafnir og ríkið sömdu á árinu 2020 um að leggja 100 m.kr. hvert um sig í fyrsta áfanga eflingar rafmagnstenginga fyrir stór skip. Verkefnið er í samræmi við stefnu Íslands í loftslagsmálum en forsenda öflugri tenginga er bygging nýrrar aðveitustöðvar Veitna við Sægarða og hún mun einnig efla afhendingaröryggi rafmagns víða um höfuðborgarsvæðið.

Í desember 2022 var formlega tekin í notkun landtenging við flutningaskip Eimskipa og í september 2023 var í fyrsta skemmtiferðaskiptið tengt við rafmagn úr landi.

Hlutverk Veitna í verkefninu er að tryggja að dreifikerfið ráði við þessar tengingar auk þess að leggja rafstrenginn.

26sept

Jóhannes Þorleiksson, forstöðumaður rafveitu hjá Veitum, og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra við það tækifæri þegar skemmtiferðaskip var í fyrsta skipti tengt rafveitu Veitna.