Vatnsvernd og ábyrg vinnsla

Styður heimsmarkmið
Sameinuðu þjóðanna
Hreint vatn og salernisaðstaða Líf á landi

Vatnsból Veitna eru fimmtán og er vatnið notað á höfuðborgarsvæðinu og á Vestur- og Suðurlandi. Vatnsból Orku náttúrunnar eru tvö. Dreifikerfi vatnsveitnanna þjóna alls um 45% þjóðarinnar. Markvisst hefur verið unnið að vatnsvernd, öðrum forvörnum og eftirliti til að tryggja gæði vatnsins. Stöðugra umbóta er þörf vegna verklags við tengingar lagna og útskolana í dreifikerfum Veitna, sjá yfirlit í viðaukum.

Til að tryggja vatnsgæði hefur frá árinu 2019 markvisst verið settur upp búnaður til að lýsa vatnið úr vatnsbólum Veitna, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni og stendur sú vinna enn yfir. Með því eru örverur, sem geta borist í vatnsbólin í leysingum, gerðar óvirkar áður en vatninu er veitt út í dreifikerfið.

Vatnsgæði í vatnsveitum Veitna og Orku náttúrunnar árið 2023 voru almennt góð og samræmdust í langflestum tilfellum gæðastöðlum, ákvæðum laga og reglna og markmiðum Orkuveitunnar. Nokkur frávik urðu sem brugðist var við og er þeim lýst að neðan.

Gæði neysluvatns í Reykjavík

Óveruleg gæðafrávik kom upp í Gaju, gas- og jarðgerðarstöð Sorpu í Álfsnesi haustið 2023.

Gæði neysluvatns í Reykjavík 2003-2023

Gæði neysluvatns á Vesturlandi

Óverulegt gæðafrávik kom upp í lindaveitu Veitna í Hafnarfjalli vorið 2023 og stóðust sýni gæðakröfur við endurtekna sýnatöku. Frávikið tengdist líklega sýnatökunni sjálfri og voru aðstæður á sýnatökustað bættar í kjölfarið í samráði við Heilbrigðiseftirlit Vesturlands.

Í kjölfar stórs jarðskjálfta á Reykjanesi sumarið 2023 varð vart við töluverða aukningu gruggs í vatnsbóli Veitna í Grábrókarhrauni. Vatnið er gegnumlýst en vegna óvissu um virkni lýsingarinnar með auknu gruggmagni voru í varúðarskyni send út tilmæli til viðkvæmra notenda um suðu á neysluvatni. Endurtekin sýnataka kom vel út og var tilmælunum aflétt.

Á Akranesi urðu íbúar varir við óbragð af kalda vatninu í ágúst 2023 sem rakið var til grænþörunga í lóni við vatnsbólið í Berjadalsá. Mikil sólargeislun, stilla og lítið vatnsrennsli vikurnar á undan hafa líklega valdið auknum þörungavexti. Ráðist var í umfangsmiklar sýnatökur í lóninu og staðfestu greiningar að þær tegundir þörunga sem fundust í lóninu væru skaðlausar fólki og dýrum. Ráðist var í hreinsun lónsins með góðum árangri. Veitur eru almennt með rekstur lónsins í athugun.

Í Borgarbyggð hófst undirbúningur að því að taka í notkun vatnsvinnsluholur á Seleyri við Borgarfjarðarbrú sem boraðar voru árið 2022. Framkvæmdir við nýja dælustöð á Hvanneyri hófust árið 2023 og standa enn. Sett verður upp lýsingartæki í dælustöðinni.

Gæði neysluvatns á landsbyggðinni 2023

Vatnshæð, vatnaskil, umhverfi, loftslag og eldgos

Þétt net vatnshæðarmæla er í eftirlits- og vinnsluholum vatnstökusvæða Veitna á höfuðborgarsvæðinu og Vesturlandi. Enn er unnið að undirbúningi fyrir rannsóknarboranir í Bláfjöllum á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en tilgangur þeirra er að ákvarða betur vatnaskil á svæðinu og þar með aðrennslissvæði vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins.

Áfram var unnið að verkefnum til að þekkja betur tengsl umhverfisþátta, örverumengunar og loftslagsbreytinga. Einnig var fylgst með mögulegum áhrifum eldgosa á Reykjanesi á vatnsgæði í Heiðmörk en ekki varð vart við merkjanlegar breytingar á gæðum neysluvatns í þeim gosum sem orðið hafa á undanförnum árum.

Sjá yfirlit yfir þessi verkefni í viðauka.

Vatnsvernd

Vatnsverndarsvæði eru afmörkuð utan um vatnsból Veitna og Orku náttúrunnar. Fylgst er með vatnsverndarsvæðum, þar á meðal flutningi á olíu, bensíni og öðrum varasömum efnum í Heiðmörk. Slys og atvik vegna hættulegrar hegðunar innan vatnsverndarsvæða eru skráð, fjallað um þau og ráðist í úrbætur eftir því sem við á. Til að fyrirbyggja mengunarslys tekur starfsfólk Veitna, Orku náttúrunnar og verktakar sem vinna að framkvæmdum á vatnsverndarsvæðum umhverfisnámskeið áður en framkvæmd hefst. Þessi krafa er sett fram í útboðsgögnum.

Til að minnka hættu á olíu- og efnaslysi á vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins hafa Veitur átt samráð við Vegagerðina, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna. Þar má nefna fyrirhugaðar endurbætur á Suðurlandsvegi, uppbyggingu athafnasvæðis á Hólmsheiði sem er í nágrenni vatnsbóla, lokanir á vegum innan vatnsverndarsvæðisins ásamt því að gera frekari grunnvatnsrannsóknir á svæðinu.

Mistök urðu við sameiginlega framkvæmd Orkuveitunnar og Reykjavíkurborgar þegar ráðist var í gerð tengingar við svokallaðan Ullarhring sem er gönguskíðabraut í Heiðmörk. Markmiðið með framkvæmdinni var að bæta flæði útivistarfólks um svæðið. Hins vegar kom í ljós að tengingin liggur innan brunnsvæðis vatnsbóla við Myllulæk en einungis hluti brunnsvæðisins er afgirtur. Búið er að loka tengingunni, rótargreining hefur farið fram með öllum aðilum málsins og verkefni frá þeirri vinnu sett í gang.

Tafir hafa orðið á niðurrifi sumarhúsa innan Elliðavatnsbletta í Heiðmörk, sem er þáttur í vatnsverndaraðgerðum fyrirtækisins. Minjastofnun hefur óskað eftir sögulegri úttekt á svæðinu til að hægt sé að varðveita menningarsögulegt gildi þess sem ein elsta sumarhúsabyggð á Íslandi.