Endurheimt náttúrugæða í Elliðaárdal

Styður heimsmarkmið
Sameinuðu þjóðanna
Menntun fyrir alla Líf á landi

Raforkuvinnsla í rafstöðinni við Elliðaár lagðist af árið 2014 eftir að aðfallspípan sem flutti vatn frá Árbæjarstíflu til rafstöðvarinnar brast. Hún var úrskurðuð ónýt. Í framhaldinu var skoðað hvort það gæti svarað kostnaði að gera við hana en niðurstaðan varð neikvæð; rafmagn frá stöðinni yrði svo dýrt að vandfundinn yrði kaupandi að því. Árið 2019 var kveðið upp úr með það að raforkuvinnsla hæfist ekki aftur í fyrirséðri framtíð. Þá var efnt til hugmyndasamkeppni um nýtt hlutverk mannvirkjanna sem öll höfðu verið friðuð árið 2012. Uppbyggingin undir merkjum Elliðaárstöðvar er afrakstur þeirrar vinnu.

Elliðaárstöð

Merkustu mannvirki Rafstöðvarinnar við Elliðaár eru sem óðast að ganga í endurnýjun lífdaga undir heitinu Elliðaárstöð. Þar er á ferðinni ný upplifun í Elliðaárdal þar sem börn og fullorðnir fræðast um sögu og vísindi í lifandi leik.

Á meðal áfanga í uppbyggingu á árinu 2023 voru:

  • Opnun veitingastaðarins Á Bistró eftir útboð á aðstöðunni.
  • Uppsetning gufuborsins Dofra, sem nefndur hefur verið verðmætasta vinnuvél Íslandssögunnar vegna þáttar hans í útbreiðslu hitaveitna og annarrar jarðhitanýtingar.
  • Uppsetning vatnsleikjasvæðis fyrir börn á öllum aldri.

Á árinu 2023 komu 4.100 nemendur í skólaheimsókn í Elliðaárstöð til að fræðast um orku, umhverfismál og nýsköpun.

Elliðaárstöð 2023

Mikil uppbygging var í Elliðaárstöð árið 2023 og gestakomur margar.

Endurheimt náttúrugæða í Elliðaárdal

Þetta er heiti verkefnis sem hleypt var af stokkunum innan Orkuveitunnar árið 2021 og síðla árs 2022 var það endurmótað og er nú samstarfsverkefni Orkuveitunnar og Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar.

Markmið verkefnisins er, af hálfu Orkuveitunnar, að fá samþykkta lögboðna niðurlagningaráætlun Rafstöðvarinnar og af hálfu Reykjavíkurborgar að áætlunin endurspeglist í deiliskipulagi dalsins. Áhersla er lögð á öfluga upplýsingagjöf í verkefninu en mistök voru gerð við hana af hálfu Orkuveitunnar þegar hleypt var úr Árbæjarlóni haustið 2020.

Undir merkjum verkefnisins hefur verið aflað margvíslegra gagna um áhrif tæmingar lónsins og um virkjanamannvirkin í dalnum, ekki síst Árbæjarstíflu.

Mikil velgengni laxins

Árbæjarlón hafði verið fyllt og tæmt á víxl að hausti og vori þar til það var tæmt varanlega haustið 2020. Rannsóknir á lífríkinu síðan benda eindregið til að sú aðgerð að hætta að skapa slíkan óstöðugleika í lífríki ánna hafi þegar komið löxum í þeim til góða. Orkuveitan hefur gengist fyrir sérstakri vöktun á lífríki ánna og hér að neðan eru tenglar á skýrslur um fiska í Elliðaám og lífríki Elliðavatns. „Vistfræðilegt ástand Elliðavatns telst vera mjög gott...“ segir meðal annars í ágripi viðfestrar skýrslu Hafrannsóknastofnunar.