Ábyrg umgengni og vinnsla úr lághitaauðlindum

Veitur reka þrettán hitaveitur; eina á höfuðborgarsvæðinu sem er sú stærsta, fimm á Vesturlandi og sjö á Suðurlandi, sjá viðauka. Hitaveiturnar þjóna um 70% þjóðarinnar. Árið 2023 var vinnsla á lághitasvæðum Veitna á höfuðborgarsvæðinu og dreifisvæðum á landsbyggðinni í samræmi við skilgreiningu og markmið fyrirtækisins og ákvæði í lögum og reglugerðum.

Ábyrg neysla á heitu vatni

Undanfarin ár hefur verið vakin athygli á því að heitt vatn til húshitunar eru ekki óþrjótandi náttúrugæði. Fólk áttar sig nú betur á en áður að forgangsraða þarf jarðhita í þágu húshitunar fyrir lífsgæði á Íslandi. Í kuldatíð hafa Veitur hvatt fólk til að fara vel með heita vatnið, ekki kynda híbýli sín óþarflega mikið og hafa glugga lokaða.

Höfuðborgarsvæðið

Vegna álags í kuldatíðinni í janúar 2023 þurftu Veitur að skerða heitt vatn til stórnotenda á höfuðborgarsvæðinu, það er til allra sundlauga og baðlóna, enda forgangsraða Veitur alltaf heitu vatni til húshitunar.

Sumarið 2023 var heitu vatni frá jarðvarmavirkjunum veitt til alls höfuðborgarsvæðisins frá júní fram í september. Þessi vatnsskipti stóðu yfir í lengri tíma en gert hefur verið áður. Með þessari aðgerð var létt á vinnslu úr lághitasvæðum á Reykjum, í Reykjahlíð, Laugarnesi og Elliðaárdal sem gerði það mögulegt að safna meiri forða í lághitasvæðunum fyrir veturinn. Áframhald verður á þessum aðgerðum næstu sumur til að minnka sumarvinnslu úr lághitasvæðunum og nýta betur þann varma sem framleiddur er í virkjunum, sjá einnig umfjöllun í kafla um nýsköpun í loftslags- og umhverfismálum.

Í kjölfar þess að heildarendurskoðun áætlana um framtíð hitaveitu á höfuðborgarsvæðinu lauk hefur verið ráðist í töluverðar framkvæmdir til að tryggja afhendingaröryggi næstu áratugi.

Árið 2023 var unnið að byggingu fjórða hitaveitutanksins á Reynisvatnsheiði en í hitaveitutankana þar safna Veitur heita vatninu sem kemur frá jarðvarmavirkjunum. Tankurinn var tekinn í notkun í desember 2023. Veitur unnu ennfremur að endurnýjun stofnlagna hitaveitu í Hafnarfirði til að auka flutningsgetu og mæta aukinni eftirspurn vegna fjölgunar íbúðarhúsnæðis og stækkun bæjarins. Þannig er öllum íbúum í Hafnarfirði tryggt heitt vatn til næstu áratuga.

Í júní 2023 var Nesjavallaæð hreinsuð en hún er ein af meginflutningsleiðunum á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu. Lögnin var síðast hreinsuð árið 2003 og var orðið tímabært að hreinsa hana aftur til að bæta flutningsgetu lagnarinnar. Nesjavallaæð er um 30 km löng hitaveitulögn sem flytur um 85 gráðu heitt vatn frá virkjuninni á Nesjavöllum til höfuðborgarsvæðisins. Hún var tekin í notkun árið 1990 og flutningsgeta hennar er liðlega 1.700 lítrar á sekúndu. Hleypa þurfti um 60°C heitu vatni út á yfirborðið og var það gert í samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og skrifstofu umhverfisgæða Reykjavíkurborgar. Vorið 2024 verður metið hvernig svæðið hefur tekið við sér og þörf á lagfæringum metin.

Áfram er horft til aukinnar varmavinnslu í Hellisheiðarvirkjun, fyrirhugaðrar virkjunar HS Orku í Krýsuvík og til nýrra lághitasvæða á höfuðborgarsvæðinu. Boraðar voru 18 hitastigulsholur á Kjalarnesi í lok árs 2022 og 2023 og í kjölfar niðurstaðna fyrirhugað að bora tvær djúpar rannsóknarholur á Brimnesi, á sunnanverðu Kjalarnesi árið 2024. Frekari hitastigulsboranir á norðanverðu nesinu fara fram í vetur. Í kjölfarið verða boraðar hitastigulsholur á Álftanesi með það fyrir augum að finna heppilega staðsetningu fyrir djúpa rannsóknarholu.

Frá árinu 2018 hafa staðið yfir rannsóknir sem snúa að sameiningu hitaveitukerfis höfuðborgarsvæðisins þannig að unnt sé að blanda saman lághitavatni og heitu vatni frá virkjunum án myndunar útfellinga. Rannsóknir lofa góðu og hafa þegar nýst vegna vatnaskipta og sumarhvíldar láhitasvæða á höfuðborgarsvæðinu, sjá að ofan. Takist verkefnið mun það gjörbreyta rekstrarfyrirkomulagi hitaveitunnar og varmaframleiðslu virkjana. Áætlað er að rannsóknarhluta verkefnisins ljúki 2024.

200729-144354-Edit

Ein af lághitaborholum Veitna í Reykjavík.

Vesturland

Ástand lághitasvæða á Vesturlandi er almennt gott. Sívaxandi eftirspurn hjá Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar (HAB) veldur því að veitan stendur tæpt í hámarksálagi en borun nýrrar holu við Hellur í Bæjarsveit veitir nauðsynlegt viðbótarafl til að bæta stöðuna þar umtalsvert. Horft er til þess að leita að heitavatnsforða nær byggðakjörnum en einnig sækja forða í Bæjarsveit og að Kleppjárnsreykjum.

Suðurland

Rangárveita þjónar m.a. þéttbýliskjörnunum Hellu og Hvolsvelli. Í byrjun árs 2023 var dælugeta aukin með nýrri djúpdælu í Laugalandi til að auka toppafl hitaveitunnar fyrir þau svæði þar sem eftirspurnin er mest. Frekari verkefni eru í undirbúningi, til dæmis að bæta flutningsgetu frá Kaldárholti til Laugalands, auka afhendingaröryggi á Hvolsvelli og leita að meiri heitavatnsforða. Boraðar voru átta hitastigulsholur við Laugaland sumarið 2023 og er áformað að bora djúpa rannsóknarholu árið 2024. Samtöl við landeigendur um leyfi til rannsókna á Ási og á Hárlaugsstöðum áttu sér stað árið 2023 og er ráðgert að bora hitastigulsholur á öðru svæðinu eða báðum árið 2024.

Borun nýrrar holu við Gljúfurárholt í Ölfusi í árslok 2023 virðist hafa skilað tilætluðum árangri og það lítur út fyrir að nú sé hægt að auka aflgetu veitunnar umtalsvert.