Ávarp
stjórnarformanns

Gylfi Magnússon

Orkuveitan mun takast á við mörg risavaxin verkefni á næstu árum. Staða og hlutverk fyrirtækisins á íslenskum orkumarkaði þýða óhjákvæmilega að það verður að leggja mikið af mörkum í þeim orkuskiptum sem framundan eru.

Á Íslandi verður dregið verulega úr bruna eldsneytis og í þess stað nýttir endurnýjanlegir og umhverfisvænir orkugjafar. Orkuveitan hefur undanfarna áratugi lagt mesta áherslu á jarðvarma í sinni orkuvinnslu, þótt einnig hafi vatnsorka verið beisluð. Sú vinnsla mun halda áfram og vaxa en aukin áhersla verður lögð á aðra orkugjafa, sem nýttir verða á umhverfisvænan hátt í góðri sátt við samfélagið.

Sambýli við ógnarkrafta

Þeir ógnarkraftar sem búa að baki jarðvarma eru ekki auðbeislaðir. Sambýlið við þá felur í sér hættu eins og jarðhræringar á Reykjanesi undanfarið minna okkur óþyrmilega á. Virkjanir og önnur mannvirki Orkuveitunnar í Henglinum hafa til þessa ekki verið í hættu en svæðið er virkt og ekki útilokað að þar verði einhvern tíma tjón vegna náttúruhamfara. Vatnsból gætu einnig skemmst í hamförum.

Við uppbyggingu veitukerfa og einstakra mannvirkja verður að hafa slíka hættu til hliðsjónar og tryggja eftir mætti að einstakir atburðir geti ekki lamað lífsnauðsynlega starfsemi. Það kallar á að tryggja að unnt sé að sækja rafmagn, heitt og kalt vatn frá mörgum stöðum og eftir mörgum leiðum og koma til notenda. Það sama á vitaskuld við um dreifikerfi fyrir gögn, þau verða að geta staðið af sér bilanir, árásir og annað sem getur á þeim dunið. Á öllum þessum sviðum og fleirum hefur Orkuveitan gegnt lykilhlutverki og mun gera það áfram.

Aldrei fjárhagslega sterkari

Kröfur og væntingar samfélagsins til Orkuveitunnar eru miklar og eiga að vera það. Meiri orka er ekki eina krafan. Kröfur í umhverfismálum fara líka sífellt vaxandi. Meðal annars mun þurfa að gera róttækar breytingar á frárennsliskerfum á næstu árum vegna þeirra til að hreinsa skólp betur. Orkuveitan mun einnig vera í fararbroddi við að þróa og innleiða nýjar lausnir til að binda koltvísýring í gegnum dótturfyrirtækið CarbFix.

Þótt öll þessi viðfangsefni kalli á miklar fjárfestingar og hugvitsamlegar lausnir þá er enginn vafi á því að Orkuveitan hefur fulla burði til að takast á við þau. Starfsfólk Orkuveitusamstæðunnar verður þar í lykilhlutverki. Fjárhagslega hefur Orkuveitan aldrei staðið betur en nú. Eigið fé fyrirtækisins var í lok síðasta árs 246 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 54,7%. Þetta hefur náðst þótt verð á þjónustu við heimili hafi lækkað að raunvirði undanfarin ár, í sumum tilfellum verulega. Jafnframt hefur verið hægt að greiða arð til eigenda.

Starf stjórnar 2023

Á árinu 2023 hélt stjórn Orkuveitunnar 18 fundi. Sérstakur vinnudagur var haldinn í september þar sem unnið var að mótun nýrrar heildarstefnu fyrir samstæðuna. Heildarstefnan var síðan samþykkt til samráðs við eigendur í desember og endanlega samþykkt í stjórn Orkuveitunnar í janúar 2024.

Formlegir Eigendafundir á árinu 2023 voru tveir; aðalfundur í apríl og aukafundur vegna kjörs endurskoðunarfélags í maí.

Talsverð breyting varð á stjórn Orkuveitunnar undir lok árs 2022 og byggt var á nýrri aðferð vegna vals fulltrúa Reykjavíkurborgar sem falið var valnefnd. Forstjóraskipti urðu í byrjun apríl þegar Bjarni Bjarnason lét af störfum og Sævar Freyr Þráinsson tók við. Af þessum ástæðum ákvað stjórn að reglubundið mat á störfum forstjóra væri ekki tímabært á árinu og mat á eigin störfum yrði gert snemma árs 2024.