F10 Mannréttindi

Styður heimsmarkmið
Sameinuðu þjóðanna
Jafnrétti kynjanna Aukinn jöfnuður Ábyrg neysla

Jafnréttisstefna Orkuveitunnar tekur til mannréttinda samkvæmt þeim þáttum sem tilgreindir eru í stjórnarskrá Íslands. Í siðareglum fyrirtækisins er einnig sérstakur kafli helgaður mannréttindum og jafnrétti. Fræðsla um þetta efni er reglubundin. Vorið 2018 gekkst Orkuveitan fyrir vinnustofum með skylduþátttöku alls starfsfólks um #metoo byltinguna og merkingu hennar fyrir vinnustaðarmenningu samstæðunnar. Á árinu 2019 voru vinnustofur með starfsfólki til undirbúnings nýs samskiptasáttmála samstæðunnar. Hann var gefinn út 2020.

Nú er í boði sex þátta rafrænt námskeið fyrir starfsfólk um jafnrétti og fjölbreytileika á vinnustaðnum.

Orkuveitan hefur skráð verklag til að bregðast við telji starfsfólk eða starfsfólk verkataka sig verða fyrir óviðeigandi hegðun eða samskiptum á vinnustað. Þar eru boðleiðir skýrðar og þau úrræði sem Orkuveitan býður þeim sem fyrir slíku verða. Þetta verklag, sem kynnt er starfsfólki, hefur tilvísun í viðbragðsáætlun við einelti, ofbeldi, kynferðislegri eða kynbundinni áreitni. Í kafla F6 um aðgerðir gegn mismunun má sjá niðurstöðu árlegrar könnunar á einelti og kynferðislegri áreitni á vinnustaðnum.

Siðareglur birgja

Á árinu 2021 gaf fyrirtækið út siðareglur fyrir birgja Orkuveitunnar, sem byggðar eru á innkaupastefnunni og tíu grundvallarreglum Global Compact, sem Orkuveitan á aðild að. Samhliða var mótað verklag um viðbrögð fyrirtækisins við upplýsingum um frávik.

Kröfur samsvarandi siðareglunum er að finna í skilmálum allra útboða á vegum Orkuveitunnar og markmið fyrirtækisins með útgáfu siðareglnanna er að þær sjálfbærnikröfur sem gerðar eru í útboðum nái einnig til smærri birgja.

Birgjar Orkuveitunnar skulu gera samsvarandi kröfur til sinna birgja.

Í árslok 2023 hafði 121 birgir staðfest að hann hlítti siðareglunum.

Á árinu 2023 voru 57% innkaupa Orkuveitunnar að undnagengnu útboði. Samsvarandi hlutfall 2002 var 59%, 56% árið 2021 og 61% árið 2020.