U2 Losunarkræfni

Losunarkræfni er skilgreind sem losun miðað við aðra tiltekna einingu, til dæmis losun á framleidda orku, tekjur eða aðrar kennitölur í viðkomandi starfsemi.

Losunarkræfni koltvíoxíðs

Orka náttúrunnar framleiðir rafmagn til viðskiptavina sinna og heitt vatn sem selt er í heildsölu til Veitna. Losunarkræfni rafmagnsins er gefin upp í grömmum af CO2 ígildum á hverja kílóvattstund (gCO2íg/kWst) og fyrir heitt vatn í grömmum af CO2 ígildum á rúmmetra (gCO2íg/m3).

Árið 2023 var losunarkræfni rafmagns 7,3 gCO2íg/kWst sem er 26% minnkun miðað við losunarkræfni árið 2016 og losunarkræfni heits vatns 205,2 gCO2íg/m3 sem er 16% minnkun miðað við losunarkræfni árið 2016, sjá töflu að neðan og viðauka. Þennan árangur má þakka því að stigin hafa verið fyrstu skref í þeirri áætlun Orkuveitunnar að gera Hellisheiðarvirkjun sporlétta árið 2025 og Nesjavallavirkjun árið 2030 sem þýðir að 95% koltvíoxíðs frá virkjununum verði fangað, bundið í berg eða hagnýtt, sjá mynd að neðan.

Árið 2023 var hlutfallsleg föngun og binding koltvíoxíðs frá Hellisheiðarvirkjun um 25% af útblæstri virkjunarinnar. Árið 2023 hófst föngun og binding koltvíoxíðs á tilraunaskala við Nesjavallavirkjun og dró hún úr um 9% af útblæstri virkjunarinnar, sjá myndir að neðan.

Eftirlit er haft með styrk CO2 og H2S í nokkrum vinnsluholum Hellisheiðarvirkjunar. Rennsli úr niðurdælingunni inn á vinnslusvæðið virðist vera innan við eitt ár og vísbendingar um að styrkur hafi aukist aðeins í tveimur eftirlitsholum sem næstar eru niðurdælingunni. Áfram er unnið að því að besta aðferðina og beina gasniðurdælingunni í niðurdælingarholur fjær vinnslusvæðinu.

Kolefnislosun gagnaflutnings hjá Ljósleiðaranum hefur hækkað á hverja einingu gagnaflutnings vegna umfangsmikilla framkvæmda árið 2023.

Orkuveitan losar ekki ósoneyðandi efni vegna starfsemi sinnar.

Hlutfallsleg hreinsun koltvíoxíðs frá Hellisheiðarvirkjun 2013-2023

Hlutfallsleg hreinsun koltvíoxíðs frá Nesjavallavirkjun 2013-2023

Losunarkræfni koltvíoxíðs 2016 - 2023
Lýsing* Eining 2016 2017 2018 2019 2020 2021 2022 2023
Rafmagn g. CO2íg/kWst 9,9 6,9 8,4 8,9 7,9 7,3 7,5 7,3
Heitt vatn g. CO2íg/m3 245,0 190,5 207,9 214,7 213,0 216,2 231,3 205,2

*Kolefnisspor lághita hefur verið metið u.þ.b. 0 gCO2íg/kWst.

Samkvæmt leiðbeiningum Umhverfisstofnunar um losunarstuðla (6. útgáfa) á vef stofnunarinnar er losunarstuðull á kWst af rafmagni 8,54 gCO2íg og losunarstuðull á m3 af heitu vatni er 434 gCO2íg.

Orkuvinnsla á rafmagni og heitu vatni 2016-2023
Lýsing Eining 2016 2017 2018 2019 2020 2021 2022 2023
Rafmagn TWst 3,4 3,6 3,5 3,5 3,6 3,5 3,5 3,5
Heitt vatn:
- Þar af háhitavatn TWst 2.1 2,1 2,6 2,3 2,7 2,8 2,9 3,1
- Þar af lághitavatn TWst 2,8 2,9 3,1 3,1 3,1 2,7 2,6 2,6

Losunarkræfni brennisteinsvetnis

Miðað við framleidda orkueiningu hefur losunarkræfni brennisteinsvetnis í jarðvarmavirkjunum dregist saman frá árinu 2016 eða úr rúmlega 2 grömmum á kílówattstund í um 1,5 gramm árið 2023, sjá viðauka.

Losun brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun var samtals um 9,7 þúsund tonn árið 2023. Styrkur brennisteinsvetnis (H2S) fór ekki yfir viðmiðunarmörk 2023. Hlutfallsleg niðurdæling brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjun var 64% árið 2023. Niðurdæling á brennisteinsvetni hófst á tilraunaskala við Nesjavallavirkjun árið 2023 og var hún 8% af útblæstri virkjunarinnar. Sjá nánar mynd og töflu að neðan.

Unnið er eftir áætlun um að Hellisheiðarvirkjun verði sporlétt árið 2025 og Nesjavallavirkjun árið 2030 sem þýðir að nánast allt brennisteinsvetni frá virkjununum verði fangað og bundið í berg.

Hlutfallsleg hreinsun brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjun 2013-2023

Hlutfallsleg hreinsun brennisteinsvetnis frá Nesjavallavirkjun 2013-2023