F2 Launamunur kynja

Jafnréttismál eru Orkuveitunni hugfólgin. Fyrirtækið hlaut Jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs 2014, Hvatningarverðlaun jafnréttismála frá Samtökum atvinnulífsins 2015 og frá árinu 2021 hefur fyrirtækið notið vottunar sem alþjóðlegur leiðtogi í jafnlaunamálum, Universal Fair Pay Leader.

Orkuveitan er aðili að Jafnréttissáttmála Sameinuðu þjóðanna og á árinu 2023 hlaut fyrirtækið jafnréttisviðurkenningu frá Rise and Lead Women. Hún var veitt fyrir árangur í jafnlaunamálum.

Árangur með nýsköpun

Á árinu 2017 tók Orkuveitan í notkun nýtt líkan sem greinir áhrif hverrar einustu launaákvörðunar á kynbundinn launamun. Með því átti fyrirtækið auðveldara með að útrýma kynbundnum launamun. Það tókst í árslok 2017 og hefur óútskýrður kynbundinn launamunur verið innan tölfræðilegra skekkjumarka síðan.

Óútskýrður kynbundinn launamunur hjá Orkuveitunni 2006-2023

Í línuritinu hér að ofan táknar 0 að karlar og konur fái nákvæmlega sömu laun fyrir störf sem talin eru jafn verðmæt. Tölur hærri en 0 tákna að karlar fái betur borgað og tölur lægri en 0 að konur fái betur borgað en karlar fyrir jafnverðmæt störf.

Jafnlaunavottun

Jafnlaunakerfi Orkuveitunnar hlaut jafnlaunavottun á árinu 2018. Sú vottun þýðir að það jafnlaunakerfi sem innleitt var á grundvelli líkansins uppfyllir ákvæði laga nr. 56/2017 um jafnlaunavottun. Kerfið er nýtt til að tryggja að Orkuveitan mismuni starfsfólki ekki á grundvelli kyns þess.

Jafnlaunavottun_2022_2025_f_dokkan_grunn