Sjálfbærnistefna

Í júní 2023 tók sjálfbærnistefna við af umhverfis- og auðlindastefnu Orkuveitunnar og stefnu um samfélagslega ábyrgð.

Sjálfbærnistefnan er skuldbinding Orkuveitunnar um að sýna umhverfinu, auðlindum og samfélagi virðingu. Í því skyni eru viðhafðir vandaðir stjórnarhættir, sem miða að stöðugum umbótum. Stefnan er grundvöllur farsælla ákvarðana og góðs samstarfs sem byggist á gegnsæi í upplýsingagjöf. Orkuveitan kallar eftir skoðunum hagsmunaaðila á því hvort starfsemi fyrirtækisins sé sjálfbær og bregst við ábendingum með ábyrgum hætti.

Sjálfbærnistefnan byggir á sex meginreglum sem eiga við allar starfseiningar: Loftslag og loftslagsáhættu, ábyrga auðlindastýringu, lífsgæði í samfélaginu, minni losun og bætta nýtingu, að vera góður samfélagsþegn og dagleg starfsemi. Áhersla er lögð á verndun neysluvatns, sjálfbærari nýtingu auðlinda, verndun og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni og vistkerfa, kolefnishlutleysi eigin starfsemi 2030 og einnig vegna aðfangakeðju starfseminnar árið 2040, að efla viðnámsþrótt samfélagsins með aðlögun þjónustukerfanna að loftslagsbreytingum. Í daglegri starfsemi er lögð áhersla á að nýta vel orku og aðföng í samvinnu við birgja og verktaka.

Orkuveitan vinnur að skilgreiningu þýðingarmikilla umhverfisþátta með hliðsjón af þeim meginreglum sem fram koma í sjálfbærnistefnunni, setur markmið um þau og skilgreinir ábyrgð.

Starfsemi Orkuveitunnar er ekki vottuð samkvæmt formlegu orkustjórnunarkerfi.

Ábyrg meðhöndlun úrgangs

Losun gróðurhúsalofttegunda frá urðuðum úrgangi hefur minnkað frá árinu 2016. Helsta ástæðan er sú að í stað þess að urða almennan úrgang þá fer hann í meira mæli í brennslu. Þessi umskipti hafa töluverð áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda því losunarstuðull sem nýttur er í útreikninga á losuninni er annar og lægri en sá stuðull sem notaður var vegna urðaðs úrgangs, sjá loftslagsbókhald Orkuveitunnar 2023 í viðauka.

Magn úrgangs ýmist dróst saman eða jókst. Í viðaukum má sjá hvernig úrgangur skiptist á milli úrgangsflokka, starfsstöðva og sveitarfélaga.

Innleiðing hringrásarhagkerfis

Hlutur úrgangs úr hreinsistöðvum fráveitu er um 60% af heildarmagni úrgangs en hefur aukist frá árinu 2022, sjá línurit að neðan. Engin ein skýring er á mismun milli ára en það er ósamræmi í gögnum. Takmarkaður möguleiki er fyrir fráveituna að stýra því hve mikill úrgangur af þessari gerð fellur til í hreinsistöðvum þar sem hann kemur frá íbúum og atvinnulífi á veitusvæðinu. Fráveitan hefur í auglýsingaherferðum minnt á þann skaða sem blautþurrkur og annað rusl geta valdið í fráveitukerfinu.

Fráveitunni er í mun að nýta þann hluta fráveituúrgangsins sem er lífbrjótanlegur, það er seyru og fitu en einnig að nýta sand sem til fellur þar. Sem lið í innleiðingu hringrásarhagkerfis var árið 2023:

  • Gengið frá samningi við seyrumóttökuna á Flúðum um móttöku á seyru úr lífrænum hreinsistöðum í Borgarbyggð, sjá viðauka.
  • Lokið við mat á fýsileika endurnýtingar á sandi úr skólphreinsistöðvum, en það verkefni fékk styrk frá umhverfis- orku og loftslagsráðuneyti. Niðurstöðurnar munu nýtast við ákvörðunartöku í þeim málum.
  • Akurinn plægður fyrir útboð á móttöku fitu úr skólphreinsistöðvum. Slík þjónusta hefur ekki verið í boði á markaði og greip fráveitan því til svokallaðs nýsköpunardrifins útboðsferlis. Vonast er til þess að hið þétta samtal sem ræktað hefur verið við markaðinn og áhugafólk um úrgangsmál verði til þess að tilboð berist í þjónustuna árið 2024.

Árið 2023 hófst hitaveitan handa við að kanna möguleika á að nýta bakvatn enn frekar og þá sem liður í innleiðingu hringrásarhagkerfis.

Flokkun úrgangs hjá Orkuveitunni 2020 til 2023