U1 Losun gróðurhúsa­lofttegunda

Loftslagsmarkmið staðfest af SBTi

Orkuveitan stefnir áfram á kolefnishlutleysi eigin starfsemi árið 2030 en einnig vegna aðfangakeðju starfseminnar árið 2040. Þetta þýðir að fyrirtækið ætlar að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 90% í umfangi 1 og 2 og um 40% í umfangi 3 árið 2030, miðað við losun viðmiðunarársins 2016. Ennfremur verður dregið úr losun í aðfangakeðju fyrirtækisins, umfangi 3, um 90% árið 2040, sjá viðauka.

Þessi markmið voru staðfest af Science Based Target initiative (SBTi) í júlí 2023 sem felur það í sér að þau standast kröfur loftslagsvísindanna. Um leið gengur Orkuveitan til liðs við „Business Ambition for 1,5°C“ herferðina sem er vaxandi hópur fyrirtækja sem ætla sér að uppfylla markmiðið um að halda hitastigshækkun undir 1,5°C. Orkuveitan er þannig orðin hluti af „Race to Zero“ herferðinni sem Sameinuðu þjóðirnar styðja við.

Orkuveitan hefur þegar stigið mikilvæg skref til að ná loftslagsmarkmiðum sínum. Má þar nefna að með því að beita Carbfix-aðferðinni við Hellisheiðarvirkjun verður virkjunin orðin sporlétt árið 2025 og Nesjavallavirkjun árið 2030. Þetta þýðir að 95% koltvíoxíðs frá virkjununum verður fangað og bundið í berg. Auk þess ætlar Orkuveitan að draga úr losun frá bílaflota sínum, hvetja til sjálfbærra innkaupa og stuðla að orkuskiptum í framkvæmdum.

Jafnframt mun Orkuveitan efla viðnámsþrótt samfélagsins með aðlögun þjónustukerfa fyrirtækisins að loftslagsbreytingum, sjá viðauka.

Bein og óbein losun Orkuveitunnar, binding með landbótum og kolefnisjöfnun, 2016-2040

Staðfest loftslagsbókhald

Árið 2023 fór Orkuveitan ítarlega ofan í saumana á orku- og veitustarfsemi sinni ásamt verkefnum sem stuðla að líffræðilegri fjölbreytni og kolefnisbindingu til að ná betur utan um loftslags- og umhverfisáhrif fyrirtækisins. Þessi vinna hefur varpað ljósi á áður ókannaða losunarþætti GHL sem ekki hafa verið taldir fram til þessa í loftslagsbókhaldi fyrirtækisins. Þrátt fyrir að enn sé verk óunnið á þessu sviði hefur framsetning á heildar kolefnisfótspori Orkuveitunnar tekið miklum framförum.

Loftslagsbókhald Orkuveitunnar er unnið samkvæmt aðferðafræði Greenhouse Gas Protocol (GHGP) og hefur verið staðfest af endurskoðunarfyrirtækinu Bureau Veritas í samræmi við alþjóðlega staðalinn ISO 14064-1.

Myndin að neðan sýnir rammann utan um loftslagsbókhald Orkuveitunnar.

Loftslagsbókhald 2024 - Teikning ÍSL Transparent 3

Ramminn utan um loftslagsbókhald Orkuveitunnar. Fram koma uppsprettur losunar gróðurhúsalofttegunda, hvar losunin á sér stað í aðfangakeðju fyrirtækisins og sýnd helstu verkefni sem stuðla að líffræðilegri fjölbreytni, eflingu vistkerfa og kolefnisbindingu.

Losun gróðurhúsalofttegunda 2023

Heildarlosun

Árið 2023 hafði heildarlosun gróðurhúsalofttegunda (GHL) frá Orkuveitunni aukist um tæp 650 tonn CO2 ígildi (íg) frá árinu 2016 eða um tæp 1%. Þar vó þyngst að styrkur CO2 í nýjum háhitaholum sem tengdar hafa verið, t.d. við Hellisheiðarvirkjun var hár, orkuframleiðsla hefur aukist í virkjununum á þessu árabili og að losun GHL frá innkaupum og hreinsuðu skólpi í sjó, er í fyrsta sinn tekin inn í loftslagsbókhaldið eftir nákvæma skoðun, sjá loftslagsbókhald Orkuveitunnar í viðauka.

Árið 2023 jókst losun GHL um rúmlega 1.900 tonn CO2íg frá árinu 2022 eða um tæplega 3% milli ára. Uppitími lofthreinsistöðvar við Hellisheiðarvirkjun var minni árið 2023 en árið 2022 vegna framkvæmda á virkjanasvæðinu og óvæntra bilana í stöðinni. Árið 2023 var hlutfallsleg föngun og binding koltvíoxíðs frá Hellisheiðarvirkjun um 25% af útblæstri virkjunarinnar. Árið 2023 hófst föngun og binding koltvíoxíðs á tilraunaskala við Nesjavallavirkjun og var hún 8% af útblæstri virkjunarinnar. Sjá einnig umfjöllun um loftslagsmarkmið að ofan.

Losun vegna umfangs 1 og 2

Árið 2023 nam losun frá umfangi 1 og 2 alls um rúmlega 52.000 tonnum CO2íg, sem er samdráttur um 4.400 tonn CO2íg frá 2016, eða um 8%. Sá losunarþáttur sem vegur lang þyngst í kolefnisspori Orkuveitunnar eru jarðvarmavirkjanirnar eða um 68% af allri losun GHL. Eins og fram kemur að ofan vinnur Orkuveitan eftir áætlun um að Hellisheiðarvirkjun verði sporlétt árið 2025 og Nesjavellir árið 2030 sem þýðir að 95% koltvíoxíðs frá virkjununum verði fangað og bundið í berg árið 2030. Þessi verkefni munu draga umtalsvert úr losun GHL frá Orkuveitunni eins og fram kemur á myndinni að neðan. Sjá einnig loftslagsbókhald Orkuveitunnar í viðauka.

Umfang 1 og 2

Heildarlosun, í þúsundum tonna af CO2-ígildum, í umfangi 1 og 2 árið 2016 og 2023. Ennfremur er sýnd losun miðað við loftslagsmarkmið Orkuveitunnar sem eru staðfest af SBTi fyrir árið 2030 og 2040. Gert er ráð fyrir að losun þessara ára verði sú sama þar sem losun frá jarðvarmavirkjunum verður svipuð 2030 og 2040.

Losun vegna umfangs 3

Árið 2023 nam losun frá umfangi 3 um 19.900 tonnum CO2 ígildum, sem er aukning um rúmlega 3.000 tonn CO2íg frá viðmiðunarárinu 2016, eða um 18%, sjá mynd að neðan. Sá losunarþáttur sem vegur lang þyngst í umfangi 3 eru innkaup eða um 25% af heildarlosun GHL en þar var losun vegna innkaupa af stállögnum mest. Það dró þó úr þessari losun árið 2023 miðað við árið 2022 eða um 4%. Orkuveitan horfir til þess að festa kaup á „grænu stáli“, til dæmis í stállögnum, þegar sú vara kemur á markað og draga þannig úr losun. Stállagnir eru yfir 50% af vörukaupum fyrirtækisins og mun samdráttur í losun vegna þeirra því vega þungt í umfangi 3, sjá loftslagsbókhald Orkuveitunnar í viðauka.

Losun hefur aukist vegna viðskiptaferða starfsfólks frá árinu 2016 eða um 200 tonn CO2íg. Losun hefur hins vegar minnkað vegna úrgangs um 50 tonn CO2íg og vegna ferða starfsfólks í og úr vinnu um 30 tonn CO2íg árið 2023 miðað við losun 2016. Orkuveitan hefur boðið starfsfólki upp á alhliða pakka til að hvetja til vistvænni ferðamáta. Um er að ræða samgöngustyrk til þeirra sem ferðast með loftslagsvænum hætti, ókeypis hleðslu fyrir rafbíla á vinnustaðnum og aðgang að rafhjólum. Að auki styður Orkuveitan sveigjanlegt vinnufyrirkomulag, þar á meðal möguleika á að vinna að heiman.

Umfang 3

Losun, í þúsundum tonna af CO2 ígildum, í umfangi 3 árið 2016 og 2023. Ennfremur er sýnd losun miðað við loftslagsmarkmið Orkuveitunnar sem eru staðfest af SBTi fyrir árið 2030 og 2040.

Verkefni sem stuðla að líffræðilegri fjölbreytni og kolefnisbindingu

Orkuveitan hefur stundað landgræðslu og skógrækt á jörðum sínum í rúmlega 70 ár eða frá árinu 1950. Markmiðið var og er að græða og bæta landið, halda því við, endurheimta náttúrulega birkiskóga og líffræðilega fjölbreytni landsins. Undanfarinn áratug hefur markmiðið einnig verið að binda GHL úr andrúmslofti í gróðri og jarðvegi. Landgræðslusvæðin eru um 595 hektarar og skógræktarsvæðin um 965 hektarar. Endurheimt votlendis fór fram á rúmlega þremur hekturum haustið 2016 í þeim tilgangi að draga úr losun kolefnis frá því mýrlendi sem þar var ræst fram og að endurheimta mýrarvistkerfi. Sjá nánar kafla um landbætur á athafnasvæðum Orkuveitunnar og líffræðilega fjölbreytni.

Binding með skógrækt og landgræðslu

Árið 2023 nam binding GHL á skógræktarsvæðum Orkuveitunnar um 5.740 tonnum CO2 ígilda og er sú sama miðað við grunnárið 2016. Skýringin á því er sú að með 10 ára millibili er gerð úttekt á bindingunni og er hún því sú sama í heilan áratug þar til hún verður uppfærð. Árið 2023 nam binding á landgræðslusvæðum um 1.250 tonnum CO2íg og hafði aukist um 4% miðað við upphafsárið 2016. Árið 2023 nam forðuð losun GHL frá endurheimtu votlendi Orkuveitunnar um 40 tonnum CO2íg og er metin sú sama síðan árið 2017, sjá loftslagsbókhald Orkuveitunnar í viðauka. Fyrirhugað er að ráðast í rannsókn á svæðinu sumarið 2024 til að staðfesta niðurstöðuna.

Kolefnisjöfnun

Orkuveitan hefur stutt kolefnisjöfnunarverkefni síðan 2018. Þessi verkefni beinast að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að sjálfbærri þróun og félags- og efnahagslegum ávinningi.

Verkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna

Frá árinu 2020 hefur Orkuveitan keypt vottaðar losunarheimildir í gegnum loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna, „RIPPLE Africa’s Improved Cookstove Project in Malawi“. Árið 2023 kolefnisjafnaði Orkuveitan 1.200 tonn CO2 ígilda með þessum hætti miðað við 645 tonn CO2íg árið 2020 og hefur þannig aukið fjölda eininga um 90%. Með því að styðja Malaví verkefnið er dregið úr losun GHL í landinu en markmiðið er einnig að vinna gegn skógareyðingu og öndunarfærasjúkdómum, sérstaklega meðal kvenna og barna, sjá viðauka.

Verkefni á vegum Votlendissjóðs

Árin 2018 til 2021 studdi Orkuveitan það framtak að draga úr losun GHL með endurheimt votlendis á Íslandi. Á þessu tímabili nemur uppsöfnuð forðuð losun GHL tæplega 3.000 tonnum CO2íg, sjá loftslagsbókhald Orkuveitunnar í viðauka.