Ávarp forstjóra

Sævar Freyr Þráinsson

Árið 2023 var ár umbreytinga hjá Orkuveitunni. Ný forysta tók við og ný stefna tekin. Orkuveitan sækir nú fram til sjálfbærrar framtíðar sem aflvaki í margvíslegu samstarfi um eflingu samfélaganna sem hún þjónar.

Á árinu fékk orkuöryggi dýpri merkingu þegar þau náttúruöfl, sem eiga stærstan þátt í lífsgæðum landsmanna, sýndu sínar dekkri hliðar. Það þarf að takast á við þau af útsjónarsemi rétt eins forverar okkar nýttu til að koma þjóðinni á þann stað sem við erum nú. Framþróun lausnanna, sem er grunnstef í nýrri stefnu Orkuveitunnar, getur fært okkur saman í átt að sjálfbærri framtíð.

Djúpar rætur

Orkuveitan býr að langri sögu. Vatnsveitan er meira en aldargömul og nýting þeirra náttúrugæða sem ferska vatnið er hefur í senn bætt heilsufar og verið undirstaða öflugs atvinnulífs, einkum í fiskvinnslu og öðrum matvælaiðnaði. Fráveiturnar mynda svo hinn enda þessarar veitu þar sem örugg losun úrgangs án tjóns fyrir umhverfi okkar er lykilatriði. Rafveiturnar, með orkuvinnslu upphaflega í fremur smáum vatnsaflsvirkjunum, leystu upphaflega af hólmi olíulampa og kolaeldavélar en eru nú undirstaða margra af öflugustu fyrirtækja landsins og farnar að drífa sífellt samgöngutæki, til enn frekari ábata fyrir loftslag og umhverfi. Umbyltingin sem hitaveiturnar ollu breyttu svo öllum lífsskilyrðum í landinu. Nú búa níu af hverjum tíu landsmönnum við hagkvæma jarðhitun húsa, fjölmörg fyrirtæki nýta jarðhita í sína framleiðsluferla, ferðaþjónusta jarðbaða er blómleg og sundlaugaferðir eru óaðskiljanlegur þáttur í þjóðarmenningunni. Ákaflega ör tækniþróun síðustu ára hefur svo sýnt okkur fram á hversu snar þáttur öflugar fjarskiptatengingar eru í lífsgæðum okkar, mikilvægar á heimilunum en algerlega ómissandi í atvinnulífinu.

Þekking er verðmæt

Þessi rekstur myndar kjarnastarfsemi Orkuveitunnar. Fyrirtækið hefur þróast mikið í tímans rás þar sem þekking og hæfni starfsfólks hefur þroskast og notið sín. Orkuveitan hefur miðlað þekkingunni sem reynslan hefur skapað, oftast á opinberum vettvangi eða í faglegu samstarfi og stundum á viðskiptalegum forsendum. Hin einstæða kolefnisförgun Carbfix, sem þróuð var við Hellisheiðarvirkjun er dæmi um það síðartalda, þar sem þekking, elja og seigla starfsfólks, í samstarfi við margt af fremsta vísindafólki heims, hefur vakið verðskuldaða veraldarathygli með tilsvarandi viðskiptatækifærum.

Gjöful náttúra jarðar er undirstaða margrar mikilvægustu starfsemi Orkuveitunnar. Þekking á náttúrunni og virðing fyrir henni er því grunnstef í rekstrinum öllum. Lengst af í sögu þeirrar grunnþjónustu sem Orkuveitan sinnir höfum við séð fyrirtækið sem einskonar brú á milli auðlindanna og samfélaganna sem við þjónum, þar sem náttúran er önnur endastöðin en heimilin og atvinnulífið hin. Þessi mynd er breytt. Í stað beinnar línu frá einum stað til annars þurfum við að draga hring þar sem náttúran nærir samfélögin en þau næra líka náttúruna á móti. Hringurinn er svo ekki bara einn heldur eru á leiðinni eftir hringnum ótal smærri hringir þar sem úrgangur eins ferlis er hráefni í annað.

Þróum hringrás

Til að byggja upp þannig hringrásarhagkerfi þarf þekkingu á þörfum samfélaganna – heimilanna og atvinnulífsins – seiglu, elju og ekki síst skapandi hugsun. Þar er komið að því vinnuumhverfi og þeirri vinnumenningu sem Orkuveitan vill búa til með starfsfólkinu. Það snýr líka að því hvernig fyrirtækin eru í stakk búin að taka nýjustu tækni í þjónustu sína, notkun umfangsmikilla gagna við sjálfvirka stýringu flókinna og stórra veitukerfa, virkjana, fjarskiptakerfa og kolefnisförgunar, notkun gervigreindar í viðfangsefnum sem henni hentar. Hvernig tæknin nýtist sem best byggist á þekkingu, hugkvæmni og sköpunargleði fólks, nýsköpunargleði starfsfólks. Í nýrri heildarstefnu Orkuveitunnar er ein megináherslan á árangursmiðaða liðsheild og gengið út frá því að hún viðhaldist með áframhaldandi forystu Orkuveitunnar í jafnréttismálum og að hæfileikar starfsliðs nýtist á öruggum og inngildandi vinnustað.

Heil heim

Margt af starfsfólki Orkuveitunnar og dótturfyrirtækjanna starfar við varasamar aðstæður. Háspennt rafmagn er oft skammt undan, heitt vatn eða enn heitari gufa og djúpir skurðir oft í grennd við hraða umferð. Orkuveitan hefur skýra stefnu um slysalausan vinnustað og gerir margt til að auðvelda starfsfólki að taka ábyrgð á og stýra hættum í umhverfi sínu. Þar verður ekki slakað á enda líf og limir fólks í húfi.

Öryggi er okkur einmitt ofarlega í huga þegar skuggahlið þeirrar gjafar sem jarðhitinn er gerði Grindavík óbyggilega, að minnsta kosti um hríð. Mannslíf hefur þegar tapast og þúsundum mannslífa er verulega raskað.

Orkuveitan er meðal stærstu jarðhitafyrirtækja í heimi og helsta orkuuppspretta fyrirtækisins er Hengilssvæðið með samnefnda eldstöð. Orkuöryggi fékk því dýpri merkingu í okkar huga við jarðeldana á Reykjanesskaga. Endurtekinn flótti starfssystkina okkar frá jarðgufuvirkjuninni í Svartsengi meðan á skjálfta- eða goshrinum hefur staðið og óttinn við heitavatnsleysi jafnvel á öllum Suðurnesjum hefur skerpt sýn á nauðsyn umfangsmeiri viðbragðsáætlana en gerðar hafa verið til þessa. Þáttur húshitunar í orkuöryggi þjóðarinnar verður ekki ofmetinn.

Orkuöryggi

Algengara var samt í almennri umræðu á árinu 2023 að orkuöryggi væri tengt raforkumálum. Sú umræða er einnig brýn. Loftslagsvæn orkuskipti úr jarðefnaeldsneyti krefjast rafmagns og Orkuveitan mun taka þátt í að afla þess. Um mitt ár 2023 lagði Orkuveitan fram nokkra valkosti til aukinnar orkuöflunar úr vindi á Suðvesturlandi og síðla árs voru kynnt áform um samvinnu við Sveitarfélagið Ölfus um nýtingu jarðhita í Ölfusdal. Þótt ekki hafi skort yfirlýsingar um vilja til endurbóta á laga- og regluumgerð virkjanaframkvæmda og þótt ekki hafi skort hugmyndir um hvaða leiðir þar eru farsælar, stendur á umbótum. Á meðan eykst ótti um orkuskort.

Eitt af hlutverkum Orkuveitunnar er að framleiða og selja rafmagn. Miðað við þá tækni sem við þekkjum nú, mun rafmagn gegna lykilhlutverki í að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi þar sem það er enn í notkun. Sumstaðar er rafmagnið notað beint, sumsstaðar á rafhlöður og í öðrum tilvikum nýtt í efnaferla til að útbúa eldsneytislíki.

Straumhvörf frekar en orkuskipti

Orkuskiptin eru eitt allra stærsta og mikilvægasta verkefni í sögu mannkyns.

Það er bæði flókið og svo er mikil tímapressa. En hugtakið orkuskipti lýsir ekki nægjanlega vel þeim tækifærum sem við sem samfélag búum yfir. Þetta snýst um að breyta framleiðsluaðferðum, samgöngum, almennum lifnaðarháttum og finna nýjar leiðir til að hreyfa samfélög áfram til meiri árangurs – í sátt við náttúruna.

Við erum ekki aðeins að skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir sjálfbæra orkugjafa, heldur verða til afleiddar afurðir, ný viðskiptatækifæri og bætt orkunýting. Þannig verða til ný fyrirtæki og störf sem auka hagvöxt og samkeppnishæfni okkar sem þjóðar.

Áhrifin ná út fyrir landsteinana.

Það má því kalla þetta, straumhvörfin en ekki orkuskiptin. Það nær betur að fanga þá byltingu og margfeldisáhrif sem við Íslendingar getum uppskorið. Enda höfum við tækifæri til að margfalda það virði sem við fáum fyrir orkuna … fyrir umhverfið, fyrir atvinnulífið, fyrir fjármálalífið, mannlífið, ímynd Íslands og samfélagið allt.

Við í Orkuveitunni erum tilbúin til að takast á við þær áskoranir sem Ísland og heimurinn allur stendur frammi fyrir.

Ábyrgur rekstur

Metnaður Orkuveitunnar stendur til þess að vinna af krafti í samstarfi með öðrum, í orku, veitum og tengdri nýsköpun, til að Orkuveitan og viðskiptavinir hennar geti stutt við sjálfbæra framþróun samfélagsins.

Metnaður Orkuveitunnar snýr að framúrskarandi þjónustu við fjölbreytta viðskiptavini; starfsemi í sátt við náttúru jarðar, ábyrga liðsheild, skilvirka stjórnarhætti og að starfsemin öll stuðli að hagsæld. Við viljum vera góður viðskiptafélagi. Árangur okkar samstarfsaðila er okkar árangur.

Þannig verður Orkuveitan aflvaki sjálfbærrar framtíðar; traust fyrirtæki með heilbrigðan rekstrarafgang og byggðan á ábyrgum rekstri.