F8 Hnattræn heilsa og öryggi

Styður heimsmarkmið
Sameinuðu þjóðanna
Heilsa og vellíðan

Orkuveitan hefur stefnu í öryggis- og heilsumálum sem er rýnd árlega af stjórn. Stefnan nær til heilsueflingar starfsfólks.

Í september 2023 var haldin sérstök öryggis- og heilsuvika til að efla vitund starfsfólks um málefnið. Fyrirlestrar voru haldnir og efnt til ljósmyndakeppni og spurningakeppni, svo eitthvað sé nefnt.

313421935_1385975301931241_4417912931957717526_n

KARITAS – velferðartorg Orkuveitunnar

KARITAS, sem hleypt var af stokkunum síðla árs 2022, er nýjung í þjónustu við starfsfólk í átt að betri líðan, þar sem fyrirtækin í samstæðunni veita starfsfólki endurgjaldslausan aðgang að löggiltum heilbrigðis- og velferðarsérfræðingum. Starfsfólk getur bókað tiltekinn tímafjölda á ári á kostnað fyrirtækisins, án milligöngu stjórnanda eða annarra.

Á árinu 2023 jókst fjölbreytni þjónustunnar sem boðið er upp á í takti við óskir starfsfólks. Notkun starfsfólks á velferðartorginu hefur aukist jafnt og þétt eftir því sem liðið hefur á árið. Algengast er að fólk nýti sér sálfræðiþjónustu, þá kemur nudd og sjúkraþjálfun þar á eftir.

Veikindi starfsfólks

Verulega dró úr fjarveru starfsfólks vegna veikinda á árinu 2023. Árið 2022 hafði fjarvera vegna skammtímavikinda aukist en það ár stakk sér niður hér á landi slæm inflúensa á sama tíma og kórónuveiran var enn útbreidd. Einnig dró verulega úr langtímaveikindum milli ára. Langtímaveikindi eru skráð vari þau lengur en 30 daga. Algengast er að þau stafi af alvarlegum sjúkdómum, andlegum eða líkamlegum. Vonir eru bundnar við að velferðarþjónusta við starfsfólk eigi þátt í að það dró úr langtímaveikindum á árinu 2023.

Öryggis- og heilsunefndir

Innan Orkuveitunnar eru nú starfandi fimm öruggis- og heilsunefndir, ein innan hvers fyrirtækis í samstæðunni. Hlutverk þeirra er að;

  • Hafa yfirsýn yfir öryggis- og heilsumál fyrirtækisins
  • Vinna með ÖH teymi samstæðunnar
  • Halda málaflokknum á lofti, eru leiðtogar og talsmenn framfara
  • Taka ákvarðanir til að tryggja bætt vinnuumhverfi

Forstjóri og framkvæmdastjórar fyrirtækjanna í samstæðunni eiga sæti í nefnd síns fyrirtækis og gefur það starfi þeirra aukið mikilvægi.

Aðgangur að líkamsræktaraðstöðu

Í húsakynnum Orkuveitunnar við Bæjarháls er líkamsræktaraðstaða sem starfsfólki standa til boða endurgjaldslaus afnot af. Í húsnæðinu er einnig boðið upp á heilsuræktartíma, svo sem í jóga, styrktarþjálfun og cross-fit. Starfsfólk hefur leyfi til að nýta tvo tíma á viku af vinnutíma sínum til að stunda líkamsrækt.