U10 Mildun loftslagsáhættu

Styður heimsmarkmið
Sameinuðu þjóðanna
Aðgerðir í loftslagsmálum

Árið 2021 gaf Orkuveitan út ramma grænnar fjármögnunar. Með honum er mörkuð sú stefna að öll fjármögnun með grænum skuldabréfum eða lánum standist bestu mögulegu starfshætti en Græni ramminn fylgir svokölluðum „green bond principles“ viðmiðum útgefnum af ICMA, Alþjóðasamtökum aðila á verðbréfamarkaði. Græni ramminn byggir á fjórum stoðum:

  1. skilgreiningu grænna verkefnaflokka
  2. valferli grænna verkefna
  3. meðferð fjármuna
  4. skýrslugjöf til fjárfesta

Græni fjármögnunarrammi Orkuveitunnar fékk bestu mögulegu einkunn frá Cicero – shades of green (nú partur af S&P Global) sem staðfesti að verkefni Orkuveitunnar hafi jákvæð áhrif á umhverfið sem og að rammi fjármögnunarinnar sé traustur. Cicero er nú partur af S&P Global.

Tilgangur útgáfunnar er að fjármagna þau fjölmörgu grænu verkefni hjá Orkuveitunni og dótturfyrirtækjunum – Veitum, Orku náttúrunnar, Ljósleiðaranum og Carbfix. Árið 2023 fjármagnaði Orkuveitan fjölmörg ný græn og loftslagsvæn verkefni fyrir um 19,7 milljarða kr. Þessi verkefni voru m.a. orkuframleiðsla úr endurnýjanlegum orkugjöfum, svo sem raforkuframleiðsla og stækkun hitaveitu, vatnsveitu, fráveitu og rafveitu, sjálfvirkur mælalestur veitukerfa, binding koltvíoxíðs í berggrunn, verkefni til að efla aðlögun og viðnámsþrótt veitukerfa vegna loftslagsbreytinga og fleira. Þessi fjármögnun nemur 32,2% af veltu samstæðunnar. Þverfaglegt teymi innan Orkuveitunnar velur verkefnin og þau eru yfirfarin af utanaðkomandi aðila.