Landbætur á athafnasvæðum Orkuveitunnar og líffræðileg fjölbreytni

Styður heimsmarkmið
Sameinuðu þjóðanna
Sjálfbær orka Líf á landi

Orkuveitan hefur umsjón með tæplega 19.000 hekturum lands og eru tæpir 16.000 hektarar innan verndarsvæða. Það eru vatnsverndarsvæði, friðlýst svæði, svæði á náttúruminjaskrá og svæði sem lúta sérstakri vernd. Í viðauka er birtur listi yfir verndarsvæði og tegundir fugla og plantna á válista sem hafa búsvæði á athafnasvæðum Orkuveitunnar. Áhersla er lögð á verndun og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni og vistkerfa eins og kostur er.

Líffræðileg fjölbreytni

Landgræðsla og skógrækt hefur verið stunduð á jörðum Orkuveitunnar í rúmlega 70 ár eða frá árinu 1950. Markmiðið var og er að græða upp landið, bæta það, halda við og styrkja eldri svæði, endurheimta náttúrulega birkiskóga og líffræðilega fjölbreytni landsins. Undanfarinn áratug hefur markmiðið einnig verið að binda kolefni úr andrúmslofti í gróðri og jarðvegi. Ljóst er að styrking líffræðilegs fjölbreytileika á landi Orkuveitunnar hefur verið viðfangsefnið mun lengur en binding kolefnis í gróðri og jarðvegi. Líffræðileg fjölbreytni er og verður áfram hluti af markmiðum náttúrumiðaðra lausna hjá fyrirtækinu.

Frágangur og umgengni

Lögð er áhersla á góða umgengni, frágang jafnóðum í verkum eins og kostur er, endurheimt náttúrlegs umhverfis og minnkun sjónrænna áhrifa á virkjanasvæðum Orku náttúrunnar og athafnasvæðum Veitna, Carbfix, Ljósleiðarans og Orkuveitunnar. Reglulega er skerpt á verklagi og fræðslu til að tryggja enn betri umgengni starfsfólks og verktaka, meðal annars á verndarsvæðum. Gróðurþekju er haldið til haga í framkvæmdum á grónu landi og hún nýtt til endurheimtar staðargróðurs vegna rasks. Þetta er gert í samvinnu við leyfisveitendur og í samræmi við markmið Orkuveitunnar.

Það felast mikil samlegðaráhrif í því að ráðast samtímis í endurheimt náttúrugæða, í aðgerðir sem hjálpa okkur að aðlagast loftslagsbreytingum og í því að innleiða mótvægisaðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta hefur Orkuveitan sýnt í verki undanfarin ár með því að:

  • Færa löskuð vistkerfi til sem því næst fyrra horfs t.d. við Andakílsá í Borgarfirði, Árbæjarkvísl í Reykjavík og á Hengilssvæðinu
  • Ráðast í blágrænar ofanvatnslausnir í þéttbýli í samvinnu við sveitarfélög

Ávinningurinn er mun meiri en eingöngu fyrir náttúruna því svona aðgerðir skila sér einnig í félagslegri, efnahagslegri og heilsufarslegri vellíðan.

grodurtofur-fyrir-eftir-larett2

Yfirborðsfrágangur með staðargróðri á skurðstæði vatnslagnar í
Jarðhitagarði Orku náttúrunnar sumarið 2023.

Landgræðsla, skógrækt og endurheimt votlendis

Landgræðsla fer að mestu, fram á eignarjörðum Orkuveitunnar á Hellisheiði og í sveitarfélaginu Ölfusi, sjá kort að neðan. Ennfremur er stunduð landgræðsla á eignajörðum Orkuveitunnar í landi Nesjavalla í Grímsnes- og Grafningshreppi og í Andakíl í Borgarbyggð og Skorradalshreppi. Þessi svæði telja um 87% af öllum landgræðslusvæðum Orkuveitunnar. Einnig er landgræðsla stunduð í minna umfangi á þjóðlendum í eigu ríkisins á Hellisheiði, þar sem Orkuveitan hefur leyfi fyrir starfsemi eða um 8% ásamt því að landgræðsla er stunduð á Hamragilslandi sem er í eigu ÍR eða um 5%. Öll þessi svæði voru í upphafi aðgerða ógróin eða lítt gróin svæði, með minna en 20% gróðurþekju. Græddir voru upp um 6 hektarar með staðargróðri utan framkvæmda á Hellisheiði og við Ölfusvatn árið 2023, sem er í samræmi við markmið fyrirtækisins um að stækka landgræðslusvæði, binda kolefni og styðja við líffræðilega fjölbreytni.

Skógrækt er öll stunduð innan eignajarða Orkuveitunnar, það er á Nesjavöllum og Ölfusvatni í Grímsnes- og Grafningshreppi og að Elliðavatni í Reykjavík. Skógrækt fer einungis fram á landi sem er girt af þannig að beitarfé sé haldið frá svæðinu. Þessi afgirtu svæði afmarka því möguleg gróðursetningarsvæði. Á eignajörðum fyrirtækisins eru fleiri svæði sem mögulegt væri að girða af og hefja skógrækt á í framtíðinni. Um 6.000 birki- og reynitré voru gróðursett í um 4 hektara af landi við Ölfusvatn árið 2023. Þetta er í samræmi við stefnu fyrirtækisins um stækkun skógræktarsvæða með innlendum trjátegundum, bindingu kolefnis og að styrkja líffræðilega fjölbreytni.

Endurheimt votlendis fór fram á 3,2 hektara svæði á landi í eigu Orkuveitunnar í sveitarfélaginu Ölfusi árið 2016. Við sjónskoðun haustið 2023 var ljóst að endurheimtin hafði tekist vel. Ráðist verður í sérstaka rannsókn á svæðinu sumarið 2024 til að staðfesta árangur.

Landgræðsla, skógrækt og votlendi

Yfirlit yfir skógræktar- og landgræðslusvæði og endurheimt votlendis á vegum Orkuveitunnar

Gönguleiðir á Hengli

Orkuveitan hefur undanfarin 30 ár haft umsjón með um 120 km af merktum gönguleiðum á Hengilssvæðinu eða frá gangsetningu Nesjavallavirkjunar. Fjöldi gesta heimsækir svæðið sem er vinsælt til útivistar allt árið. Sumarið 2023 var lögð áhersla á að lagfæra fræðsluleiðina umhverfis Nesjavallavirkjun og verður haldið áfram með þá vinnu sumarið 2024.

Dregur úr mosaskemmdum á Hellisheiði

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur vaktað mosa við jarðvarmavirkjanir á Hengilssvæðinu frá árinu 2012. Niðurstöður mælinga frá árinu 2022 sýna að tíðni mosaskemmda, sem líklega má rekja til brennisteinsmengunar, hefur minnkað frá árinu 2017, sjá viðauka. Jafnframt hefur styrkur brennisteins í mosa við Hellisheiðarvirkjun lækkað mikið. Þekja mosa er að langmestu leyti enn órofin, nema á einstaka stað við Nesjavallavirkjun. Losun brennisteinsvetnis við Hellisheiðarvirkjun hefur minnkað mikið eftir að lofthreinsistöð virkjunarinnar var stækkuð árið 2017 og er líklegt að rekja megi þessar niðurstöður til þess að dregið hefur úr losun brennisteinsvetnis í andrúmsloft. Árið 2025 er fyrirhugað að gangsetja nýja lofthreinsistöð við Hellisheiðarvirkjun sem hreinsa mun nær allt brennisteinsvetni frá virkjuninni og árið 2030 við Nesjavallavirkjun.

Lífríki í Andakílsá er öflugt

Lífríki í Andakílsá hefur náð sér á strik eftir að mikill aur barst í ána við ástandsskoðun á inntaksstíflu Andakílsárvirkjunar í maí 2017. Tæplega 177 laxar veiddust þar sumarið 2023. Um 15.000 seiðum var sleppt í ána árið 2023 og 15.000 laxaseiði voru sett í klak. Verkefnið hefur verið tekið föstum tökum. Áfram var unnið að bakkavörnum við Andakílsá árið 2023, m.a. voru birki og víðir gróðursett í bakkann.

Í kjölfar áhættumats sem unnið var árið 2021 vegna fyrirhugaðrar hreinsunar aurs úr inntakslóni virkjunarinnar er áætlað að endurbæta stíflumannvirki og hreinsa upp úr lóninu til að tryggja öryggi, bæði fólks og umhverfis, þar sem mannvirkin uppfylla ekki öryggisstaðla. Unnið er að öflun leyfa.

Vatnsborð Skorradalsvatns og rennsli í Andakílsá

Vatnshæð Skorradalsvatns fór undir viðmiðunarmörk fyrstu þrjár vikur ársins 2023 vegna frosthörku, sjá viðauka. Dregið var úr rennsli í Andakílsá samkvæmt ráðleggingum Hafrannsóknastofnunnar. Vatnshæð Skorradalsvatns fór yfir viðmiðunarmörk um miðjan febrúar 2023 vegna mikilla leysinga. Rennsli Andakílsár var innan viðmiðunarmarka nema þegar draga þurfti úr rennsli í byrjun árs vegna frosts.

Hafrannsóknastofnun vinnur að rannsóknum á áhrifum vatnsmiðlunar á lífríki Skorradalsvatns.

Vistfræðilegt ástand Elliðavatns er gott

Niðurstöður rannsókna Hafrannsóknastofnunar á vistkerfi Elliðavatns sýna að vistfræðilegt ástand vatnsins er mjög gott samkvæmt útreikningum á vistfræðilegu gæðahlutfalli sem byggt var á tiltækum líffræðilegum og eðlisefnafræðilegum gæðaþáttum, sjá viðauka.

Orkuveitan undirbýr reglubundna vöktun á ástandi Elliðavatnsstíflu, meðal annars vegna jarðhræringa, og stefnir að því að vöktunin komist á 2024.