Loftslagið

Orkuveitan stefnir á kolefnishlutleysi eigin starfsemi árið 2030 en einnig vegna aðfangakeðju starfseminnar árið 2040.

Loftslagsmarkmiðin voru staðfest af Science Based Target initiative (SBTi) í júlí 2023. Þau standast því kröfur loftslagsvísindanna og er ætlað að uppfylla markmiðið um að halda hitastigshækkun undir 1,5°C. Sjá viðauka.

Árið 2023 fór Orkuveitan ítarlega í saumana á orku- og veitustarfsemi sinni ásamt verkefnum sem stuðla að líffræðilegri fjölbreytni og kolefnisbindingu til að ná betur utan um þau loftslagsáhrif sem fyrirtækið hefur í för með sér. Sjá loftslagsbókhald Orkuveitunnar 2023 í viðauka.

Orkuveitan hefur þegar stigið mikilvæg skref til að ná loftslagsmarkmiðum sínum eins og fram kemur í þeim áherslum sem taldar eru upp að neðan.

Áhersla Orkuveitunnar í loftslagsmálum:

  • Stefna á kolefnishlutleysi eigin starfsemi árið 2030 en einnig vegna aðfangakeðju starfseminnar
  • Auka föngun og förgun koltvíoxíðs á lands- og heimsvísu
  • Vera drifkraftur í orkuskiptum í samgöngum og framkvæmdum
  • Efla viðnámsþrótt veitukerfa og virkjana til að aðlagast loftslagsbreytingum

Í köflum sem varða loftslagsmál er gerð grein fyrir losun gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni og greint frá verkefnum sem ráðist er í til að markmið Orkuveitunnar í loftslagsmálum náist.