Orkuveitan hefur verið í fararbroddi í nýsköpun og þróun á sviði loftslags- og umhverfismála undanfarinn áratug.
Unnið er að nýsköpun og þróun innan fyrirtækisins en einnig í samvinnu við háskólasamfélagið innanlands og erlendis. Samstarf atvinnulífs, háskólasamfélagsins og sveitarfélaga er oftar en ekki forsenda þess að hugmyndir geti þróast yfir í raunveruleg verkefni sem nýtast atvinnulífi og samfélagi.
Dæmi um slík verkefni sem unnið er að hjá Orkuveitunni og miklar vonir eru bundnar við eru:
- Sporlétt vinnsla jarðhita á Hellisheiði og Nesjavöllum.
- Hlöðum betur. Verkefni um hvernig fólk hleður og notar rafbíla og um álagsstýringu á stórum skala.
- Bætt yfirsýn yfir gæði vatns og dreifikerfi sem nýtist til greininga á loftslagsáhrifum.
- Nýting á fráveituúrgangi.
- Betri yfirsýn yfir viðbrögð fráveitunnar við loftslagstengdum atburðum.
- Nýting gervigreindar til að spá fyrir um notkun heits vatns.
- Nýting orku djúpt úr jarðhitakerfunum sem nýtt eru í dag á háhitasvæðum í Hengli.
Nánari upplýsingar um verkefnin auk annarra verkefna Orkuveitunnar á sviði nýsköpunar og þróunar í loftslags- og umhverfismálum má finna í viðaukum að neðan.
Tímamót
Dæmi um tímamót árið 2023 í nýsköpunarverkefnum hjá Orkuveitunni eru:
- Tilraunir Carbfix hófust í Helguvík til að nýta sjó í stað ferskvatns til varanlegrar bindingar koldíoxíðs (CO2) í berglögum. Þetta eru nýmæli á heimsvísu og mikilvægt skref í framþróun Carbfix tækninnar, sjá viðauka.
- Tilraunaniðurdæling Carbfix og Orku náttúrunnar á koldíoxíði (CO2) og brennisteinsvetni (H2S) frá Nesjavallavirkjun hófst. Þetta er stór áfangi því stefnt er að sporleysi virkjunarinnar árið 2030, sjá viðauka.
- Bygging hófst á nýrri lofthreinsistöð við Hellisheiðarvirkjun sem mun hreinsa nær allt koldíoxíð (CO2) og brennisteinsvetni (H2S) frá virkjuninni árið 2025, sjá viðauka. Ennfremur lauk fyrsta umhverfismati sinnar tegundar á Íslandi vegna stórfelldrar niðurdælingar á koldíoxíðs (CO2) til geymslu á Hellisheiði, sjá viðauka.
- Nýsköpunardrifið útboðsferli Veitna var nýtt í fyrsta sinn þar sem boðið var út ákveðið vandamál, þ.e. nýting fitu úr fráveitunni, í stað tiltekinnar lausnar. Uppfylla þarf ákveðin skilyrði (sjálfbærni- og umhverfismarkmið í þessu tilfelli), sjá viðauka fyrir frekari upplýsingar.
- Staðfesting fékkst frá Science Based Targets initiative (SBTi) um að loftslagsmarkmið Orkuveitunnar byggja á vísindalegum grunni og styðja við aðgerðir Parísarsáttmálans um að halda hlýnun jarðar innan við 1,5°C, sjá viðauka. Þetta kallar á nýskapandi lausnir í innkaupum og öðrum rekstri.
Vísindasjóður Orkuveitunnar
Árið 2023 var 150 milljónum króna úthlutað til 30 verkefna á ýmsum sviðum vísinda í gegnum Vísindasjóð Orkuveitunnar, VOR. Tilgangur sjóðsins er þríþættur:
- Að styðja við framtíðarsýn Orkuveitunnar sem er að auka lífsgæði með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi.
- Að styrkja rannsóknir meistara- og doktorsnema sem tengjast starfssviði og áherslum Orkuveitunnar.
- Að stuðla að og styrkja rannsóknir á starfssviði Orkuveitunnar með sérstakri áherslu á þau heimsmarkmið sem eru í forgangi hverju sinni í samræmi við stefnu fyrirtækisins.
Orkuveitan leggur sérstaka áherslu á sex af Heimsmarkmiðunum 17: Sjálfbær orka, Jafnrétti kynjanna, Hreint vatn og hreinsætisaðstaða, Ábyrg neysla og framleiðsla, Aðgerðir í loftslagsmálum og Líf á landi.
Hér má sjá hvaða verkefni hlutu styrk árið 2023.
Snjallmælar Veitna
Tilkoma snjallmæla sem mæla orkunotkun viðskiptavina með reglulegu millibili og senda upplýsingarnar sjálfkrafa til Veitna veitir innsýn í hvernig notkun á rafmagni og heitu vatni dreifist yfir sólarhringinn, vikur eða mánuði. Þannig getur fólk stýrt notkun sinni betur, komið fyrr auga á frávik og bilanir og skapað tækifæri til að spara orku og lækka rafmagnsreikninginn.
Veitur fá betri yfirsýn t.d. um áhrif útihitastigs á notkunina, geta spáð betur fyrir um orkuþörf, geta brugðist fyrr við vegna bilana og geta stutt betur við ábyrga og sjálfbæra nýtingu auðlindanna, sjá viðauka. Umhverfisábatinn vegna tilkomu snjallmæla er því margvíslegur.
Viðaukar og annað ítarefni
- Carbfix hefur prófanir á kolefnisbindingu með sjó
- Niðurdæling á CO2 og H2S hafin á Nesjavöllum
- Orka náttúrunnar og Carbfix stíga mikilvæg skref í átt að sporleysi Hellisheiðarvirkjunar
- Fyrsta umhverfismat sinnar tegundar á Íslandi vegna stórfelldrar niðurdælingar á koldíoxíðs (CO2) til geymslu á Hellisheiði
- Nýting fitu úr fráveitu Veitna
- Orkuveitan hlýtur staðfestingu á loftslagsmarkmiðum
- Hlöðum betur
- Gervigreind notuð til að spá fyrir um notkun heita vatnsins
- Af hverju snjallmælar?
- Nýsköpunarverkefni á sviði loftslags- og umhverfismála (samantekt) (PDF)