Stjórnarhættir Orkuveitunnar eiga að tryggja fagmennsku, hagkvæmni, ráðdeild, gegnsæi og ábyrgð í rekstrinum. Um meginstarfsemi Orkuveitunnar gilda lög nr. 136/2013. Á árinu 2014 endurnýjuðu eigendur fyrirtækisins sameignarsamning um starfsemina þar sem nánar er kveðið á um stjórnhætti. Við gerð sameignarsamningsins, samþykkta fyrir dótturfélög Orkuveitunnar og starfsreglna fyrir allar stjórnir, var tekið mið af þeim leiðbeiningum sem Viðskiptaráð vann í samstarfi við Samtök atvinnulífsins og Nasdaq.
Orkuveitan telur að stjórnarhættir fyrirtækisins uppfylli leiðbeiningarnar.
Á árinu 2022 samþykkti Reykjavíkurborg, stærsti eigandi fyrirtækisins, almenna eigandastefnu sem tekur mið af leiðbeiningum OECD um stjórnhætti fyrirtækja í opinberri eigu. Með stefnunni er mörkuð stefna um eignarhald Reykjavíkurborgar ásamt því að skerpa á meðferð eignarhluta í stjórnsýslu sveitarfélagsins.
Sú breyting var einnig gerð að valnefnd tilnefnir fólk til stjórnarsetu fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Nokkrar breytingar urðu á stjórninni við þetta.
Í tengslum við undirbúning hlutafjáraukningar Ljósleiðarans, sem staðið hafði í nokkur misseri, óskuðu stjórnir Ljósleiðarans og Orkuveitunnar á árinu 2023 eftir athugun Innri endurskoðunar annars vegar á meðferð trúnaðarupplýsinga sem lagðar höfðu verið fyrir stjórn Orkuveitunnar og samræmi starfsemi Ljósleiðarans við eigendastefnu Orkuveitunnar. Skýrsla innri endurskoðanda, með athugasemdum og tillögum, var lögð fyrir stjórnirnar í desember 2023. Þá hafði þegar verið bætt úr hluta atriðanna sem komu fram í skýrslunni og í framhaldinu var greint frá aðgerðum til að mæta öðrum ábendingunum.