Ábyrg umgengni og vinnsla úr háhitaauðlindum

Fylgst er með virkni jarðhita á yfirborði á Hengilssvæðinu sem getur breyst náttúrulega en einnig vegna jarðvarmavinnslu. Engin ákveðin leið er til að greina vel á milli hvort um náttúrulegar breytingar er að ræða eða af mannavöldum en þó er reynt að leggja mat á það með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni. Breytingar á yfirborðsvirkni hófust til dæmis í Hverahlíð eftir að holur voru boraðar þar og því hægt að leiða að því líkum að breytingarnar tengist nýtingu jarðhitans á svæðinu.

Sumarið 2023 vakti athygli að töluverður jarðhiti hefur leitað upp til yfirborðs, einkum undir þjóðvegi 1 í Hveradalabrekku við Skíðaskálann. Orka náttúrunnar fylgist náið með stöðu mála á þessu svæði í góðu samstarfi við Vegagerðina.

USOR2023_Vinnsla_breytingar_IS

Vinnslusvæði jarðvarmavirkjana á Hengilssvæðinu og breytingar á yfirborðsjarðhita.

Orkuvinnsla á Nesjavöllum og Hellisheiði/Hverahlíð

Árið 2023 var orkuvinnsla á Nesjavöllum og á Hellisheiði í samræmi við gildandi leyfi og markmið Orku náttúrunnar. Undanfarin ár hefur viðhald vinnslugetu virkjananna á Hengilssvæðinu verið eitt af mikilvægustu verkefnum fyrirtækisins.

Fyrirsjáanlegt er að stækka þarf núverandi vinnslusvæði á Hengilssvæðinu ef tryggja á nægt framboð á heitu vatni í samræmi við framtíðareftirspurn og viðhalda fullri vinnslu fyrir heitt vatn og rafmagn í virkjununum til lengri tíma. Vegna þessa er umfangsmikil vinna hafin í öflun tilskilinna leyfa. Má þar nefna stækkun vinnslusvæðis í Hverahlíð, aukinn fjölda vinnslu-og niðurdælingarholna á Nesjavöllum og leyfi fyrir rannsóknarborunum á nýjum svæðum sunnan Hellisheiðar.

Formlegt ferli mats á umhverfisáhrifum og skipulags vegna rannsóknarborana í Meitlum og Hverahlíð II og ferli vegna skipulags orkuvinnslusvæðis á Nesjavöllum hófst 2023. Ráðist var í ýmsar vettvangsrannsóknir vegna þessa sumarið 2023, s.s. úttekt á jarðminjum, gróðri og fuglalífi.

Orkuveitan leggur áherslu á að hagnýting auðlinda sé með eins ábyrgum hætti og mögulegt er og staðinn sé vörður um líffræðilega fjölbreytni og vistkerfi.

Losun jarðhitavatns á Nesjavöllum og Hellisheiði/Hverahlíð

Jarðhitavatni er dælt niður við Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun til að vernda yfirborðsvatn og grunnvatn því það er heitara en grunnvatn og með aðra efnasamsetningu. Annað markmið er að stýra niðurdælingu þannig að hún styðji við þrýsting í jarðhitageyminum sem stuðlar að ábyrgari nýtingu auðlindarinnar. Niðurdælingargeta er fyrir allt skiljuvatn frá báðum virkjunum. Í þeim tilfellum sem jarðhitavatn fer á yfirborð eru truflanir í rekstri sem valda því að ekki er hægt að dæla öllu niður.

Undanfarin ár hefur verið unnið að mörgum rannsóknar- og þróunarverkefnum til að uppfylla kröfur um niðurdælingu á Nesjavöllum og Hellisheiði með nokkrum árangri, sjá viðauka.

Árið 2023 var rúmlega 76% af jarðhitavökva sem tekinn var úr jarðhitageyminum á Nesjavöllum dælt í niðurdælingarholur, þar af um 35% í jarðhitageyminn. Þrátt fyrir árangur í niðurdælingarveitu Nesjavallavirkjunar fylgir jarðhitavinnslunni töluverð losun upphitaðs grunnvatns á yfirborð sem kemur fram í varmamengun í borholum og lindum við Þingvallavatn. Áfram er unnið að uppbyggingu djúprar niðurdælingar og hófst niðurdæling í nýja holu sumarið 2023. Holan tók við tæplega 25% af öllu jarðhitavatni Nesjavallavirkjunar sem dælt var niður árið 2023, þrátt fyrir að hafa verið í rekstri rúmlega hálft árið. Blöndun jarðhitavatns við hitaveituvatn á höfuðborgarsvæðinu er áætluð 2026 og standa væntingar til þess að þannig verði komið í veg fyrir blöndun jarðhitavatns í grunnvatn, sjá umfjöllun um meira jarðhitavatn til höfuðborgarsvæðisins hér að neðan.

Í júní 2023 var ráðist í viðhald á Nesjavallaæð sem rekin er af Veitum. Á sama tíma réðst Orka náttúrunnar í viðhald í varmastöð virkjunarinnar. Upptekt úr jarðhitasvæðinu á þessum tíma var í hámarki vegna raforkuvinnslu og losa þurfti mikið af heitu vatni á yfirborð og gufu út í andrúmsloft. Samhliða réðst Orka náttúrunnar í viðhald á vél í Hellisheiðarvirkjun sem kallaði á mikla losun á gufu út í andrúmsloft. Óþarfa upptekt á dýrmætri auðlind er sóun, hefur neikvæð áhrif á umhverfið og orðspor ásamt því að erfiðara er að viðhalda rekstri virkjanna til framtíðar. Brýnt hefur verið fyrir Orku náttúrunnar og Veitum að huga betur að samþættingu viðhalds til að lágmarka umhverfisáhrif og auðlindasóun.

Rúmlega 70% af þeim jarðhitavökva (skiljuvatn og þéttivatn) sem tekinn var upp úr jarðhitageyminum árið 2023 á Hellisheiði var dælt aftur niður í hann. Það þéttivatn (þétt hrein gufa) sem ekki fór í niðurdælingu gufaði upp í kæliturnum eða var losað á yfirfall (rúmlega 1,5%). Yfirfallið er notað vegna skipulagðra eða óvæntra atvika í rekstri.

Árið 2023 var töluverð áskorun að halda losun á yfirborð innan markmiða Orku náttúrunnar vegna viðhaldsverkefna og óvæntra bilana en það tókst þó.

Meira jarðhitavatn til höfuðborgarsvæðisins

Sumarið 2023 fékk allt höfuðborgarsvæðið heitt vatn frá jarðvarmavirkjunum. Rannsóknir sem snúa að sameiningu hitaveitukerfis höfuðborgarsvæðisins þannig að unnt sé að blanda saman lághitavatni og heitu vatni frá virkjunum lofa góðu. Verkefnið mun gjörbreyta rekstrarfyrirkomulagi hitaveitunnar og varmaframleiðslu virkjana þar sem stefnt er að því til frambúðar að minnka sumarvinnslu úr lághitasvæðunum og nýta betur þann varma sem framleiddur er í virkjunum. Þannig mun draga verulega úr yfirborðslosun heits vatns á Nesjavöllum sem mun með tímanum draga úr varmamengun við strönd Þingvallavatns.

Áhrif losunar jarðhitavatns á lífríki í Þorsteinsvík

Fylgst hefur verið með lífríki í Þorsteinsvík við Þingvallavatn frá því áður en Nesjavallavirkjun var reist. Niðurstöður mælinga Náttúrufræðistofu Kópavogs sýna að snefilefni í jarðhitavatni frá virkjuninni sem helst hafa verið talin hafa neikvæð áhrif á lífríki benda ekki til tölfræðilegar marktækrar aukningar í umhverfinu.

Áfram verður unnið að greiningum á stöðu grunnvatns á Nesjavöllum þannig að Orka náttúrunnar nái markmiðum sínum um að minnka umhverfisáhrif Nesjavallavirkjunar.

Varmagja2023_IS

Vatnshiti í Varmagjá við Þingvallavatn, þróun Nesjavallavirkjunar og mótvægisaðgerðir.

Skjálftavirkni

Niðurdæling jarðhitavatns, einkum á Húsmúlasvæðinu, en einnig sprengingar í tengslum við jarðfræðirannsóknir og boranir á háhitasvæðum geta valdið skjálftavirkni, svokallaðri örvaðri skjálftavirkni eða gikkskjálftum. Orka náttúrunnar vinnur eftir verklagi sem miðar að því að lágmarka hættu á örvuðum jarðskjálftum í og við Hengilinn.

Markmið Orkuveitunnar um að jarðskjálftar sem hugsanlega tengjast niðurdælingu á jarðhitavatni valdi sem minnstum óþægindum og valdi ekki tjóni var uppfyllt. Árið 2023 varð skjálfti að stærð 3,35 á niðurdælingarsvæði Orku náttúrunnar. Engar breytingar voru gerðar í niðurdælingu og engar tilkynningar voru sendar til skjálftavaktar Veðurstofu Íslands og Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra vegna breytinga á niðurdælingu árið 2023.