Veitur annast uppbyggingu og rekstur fráveitu í þéttbýli í Reykjavík, á Akranesi og í Borgarbyggð. Frárennsli frá Kópavogi, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi auk hluta Garðabæjar er hreinsað í hreinsistöðvum við Ánanaust og Klettagarða eða frá um 60% þjóðarinnar.
Á safnsvæði Veitna hafa íbúar og atvinnulíf haft aðgang að veitukerfi og skólphreinsun í samræmi við reglur en fyrirtækið hefur fengið undanþágu frá meginreglunni um skólphreinsun gegn því að vakta viðtakann fyrir mögulegum neikvæðum áhrifum, sjá umfjöllun að neðan um gæði sjávar. Veitur hafa tekið ákvörðun um að ráðast í fjárfestingar og aðgerðir til að skólphreinsun sé a.m.k. í samræmi við skilgreiningu reglugerða á eins þreps hreinsun.
Langtímamarkmið Veitna er að strendur verði ávallt hreinar enda eru fjörur gjarnan skilgreindar sem útivistarsvæði í aðalskipulagi sveitarfélaga. Losun óhreinsaðs skólps um yfirfallsútrásir er þó órjúfanlegur hluti þess fráveitukerfis sem byggt hefur verið upp á liðnum áratugum. Svo mun verða um næstu framtíð meðan blöndu skólps og ofanvatns er veitt um safn- og flutningskerfi fráveitunnar. Um 28% af fráveitulögnum Veitna (m.v. lengd) eru blandlagnir.
Dæmi um aðgerðir til að nálgast fyrrnefnda framtíðarsýn og hafa gengið vel eru markviss lekaleit, breytt verklag í viðhaldi dælustöðva og umfangsmiklar fjárfestingar í lagnakerfinu til að beina ofanvatni frá skólpkerfinu, þetta verkefni er í forgangi hjá fráveitunni. Unnið er að langtímaáætlunum um fulla aðgreiningu óviðkomandi vatns frá skólpkerfinu. Árið 2023 lauk slíkri vinnu á svokölluðu Sogamýrarsvæði í Reykjavík og Kalmansvíkursvæði á Akranesi og er hún langt komin fyrir Miðvogslækjarsvæði á Akranesi og vatnasvið Kópavogslækjar innan sveitarfélagamarka Reykjavíkur.
Gæði sjávar
Nýr áfangi í umhverfisvöktun í viðtaka hreinsaðs skólps frá höfuðborgarsvæðinu og Akranesi hófst á árinu 2023 og mun ljúka á seinni hluta ársins 2024. Rannsóknirnar eru að þessu sinni í samræmi við samræmdar kröfur á landsvísu byggt á svokallaðri Vatnaáætlun Íslands, að því frátöldu að Umhverfisstofnun hefur fallið frá kröfum um sýnatökur á hryggleysingjum á mjúkum botni við Akranes m.a. þar sem klapparbotn er á svæðinu og miklir sjávarstraumar. Með þessu eru Veitur að leggja sitt af mörkum til að viðhalda samræmdu ástandsmati vatnshlota hér á landi, fyrir þau vatnhlot sem fyrirtækið hefur áhrif á með starfsemi sinni.
Veitur og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafa vaktað örverufræðileg gæði strandsjávar Reykjavíkur og Kjalarness mánaðarlega yfir árið, alls 165 sýni. Meðfram strandlengjunni reyndust 83% af sýnunum vera undir viðmiðunarmörkum um saurkólígerla og 93% af sýnunum voru undir viðmiðunarmörkum um saurkokka, sem þýðir mjög lítil saurmengun.
Lífrænar hreinsistöðvar
Örverustyrkur í grennd við útrásir frá lífrænu hreinsistöðvum Veitna á Vesturlandi hefur mælst yfir mörkum sem skilgreind eru í starfsleyfi undanfarin ár.
Árið 2023 var ráðist í nánari greiningu á örverustyrk við útfall hreinsistöðvanna. Meðal annars voru staðsetningar sýnatökustaðar leiðréttar í þeim tilfellum sem sýni voru tekin innan afgirtra umráðasvæða Veitna eða ofan í brunnum. Slíkar sýnatökur gefa villandi mynd af þeirri áhættu sem sýnatökunum er ætlað að meta, það er að segja áhættu almennings af örverumengun í yfirborðsvatni þar sem almenningur eða matvælaframleiðsla kann að vera útsett. Öll sýni eru nú tekin úr yfirborðsvatni sem aðgengilegt er almenningi, eða úr borholum þar sem vatnstökusvæði eru í grennd við skólphreinsistöðvar. Niðurstöður, miðað við uppfærðar staðsetningar, benda til þess að gildi við útfallið í Reykholti og Bifröst valdi ekki heilsufarsáhættu en að gildin fari yfir mörk við Hvanneyri og Varmaland. Þar þarf að ráðast í úrbótaverkefni.
Allar niðurstöður sýnataka og -greininga fráveitu Veitna má sjá í árlegum yfirlitsskýrslum sýnatöku og mælinga sem aðgengilegar eru á vef Veitna, auk þess sem sérstök skýrsla var gefin út í sama útgáfuflokki á árinu 2023 vegna gerlasýnataka við lífrænu hreinsistöðvarnar í Borgarbyggð.
Ofanvatnslausnir
Veitur vinna áfram að innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna í samvinnu við sveitarfélög til að hægja á rennsli regnvatns af götum, vegum og öðrum svæðum ofan í fráveitukerfið og draga úr líkum á losun um yfirföll í fráveitukerfinu. Akraneskaupstaður og Veitur hafa t.d. unnið saman að því að þróa ofanvatnskerfi á yfirborði sem þjóna nýbyggðum hverfum í austurhluta þéttbýlisins á Akranesi.
Ábyrg neysla og bætt nýting fráveituúrgangs
Veitur hafa ítrekað hvatt fólk til að nota salernin ekki sem ruslafötur þar sem sótthreinsi- og blautklútar ásamt öðru rusli veldur álagi á búnað og umhverfið. Á árinu 2023 lögðu Veitur einnig áherslu á, í samstarfi við Sorpu, fræðslu til almennings um hvernig skila megi fitu og olíu til lífdísilsframleiðslu í stað þess að hella þessu orkuríka efni í svelgi.
Fráveitan vinnur að nýsköpunarverkefnum til að undirbúa endurnýtingu á fráveituúrgangi eins og sandi, seyru, fitu og ristarúrgangi sem lið í innleiðingu hringrásarhagkerfisins. Sjá viðauka um Nýsköpunarverkefni á svið loftslags- og umhverfismála.
Orkan úr eldhúsinu er nýtt samvinnuverkefni Veitna og Sorpu sem miðar að því að endurnýta afgangsolíu úr eldhúsinu og vernda lagnir heimilisins, sjá myndband að neðan.