Snemma árs 2023 var gerð sú breyting að þjónustufulltrúar í sameiginlegu þjónustuveri samstæðu Orkuveitunnar færðust beint til dótturfélaganna og eru þar í nánari snertingu við þarfir viðskiptavina hvers þeirra.
Eins og síðustu ár voru langflest erindi til þjónustuveranna tengd álestri á mæla vegna flutninga eða annars. Slíkum erindum mun þó fækka eftir því sem útbreiðsla snjallmæla eykst en þeir senda sjálfir upplýsingar um orkunotkun.
Heildarfjöldi skráðra erinda til þjónustuveranna árið 2023 var tæp 240 þúsund, sem er um helmings fjölgun frá árinu áður. Gera verður fyrirvara við samanburð milli ára vegna áðurnefndra breytinga. Sömuleiðis hafa fyrirtækin komið sér upp eigin flokkun á erindum og því er samanburður þar á milli ára einnig með fyrirvara.
Erindi viðskiptavina við þjónustuver
Lipurri innheimta skilar árangri
Umbætur í innheimtu viðskiptakrafna hafa skilað sér í því að lokunum vegna vanskila hefur fækkað verulega. Áhersla er á að hjálpa fólki sem lendir í vanskilum út úr þeim. Úrræðum þjónustufulltrúa til að leysa úr málum hefur verið fjölgað og skerpt hefur verið á innheimtuferlinu öllu. Þetta hefur átt þátt í því að vanskil hafa minnkað og lokunum vegna vanskila fækkað.
Um þriðjungur allra lokana árið 2022 og fimmtungur árið 2023 var hinsvegar vegna breytts verklags við söluaðilaskipti. Rafveitunum er nú skylt að beita lokunum til að knýja á um að viðskiptavinir velji sér raforkusala. Þessi fjöldi er ekki inn í tölunum í myndritinu að neðan og hefur tölu lokana árið 2022 verið breytt til samræmis. Í Ársskýrslu 2022 voru þessar lokanir hafðar með vanskilalokunum.